144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessar áhyggjur. Ég hef miklar áhyggjur af því, ég tel að það væri þjóðinni ekki hagfellt ef bankinn yrði seldur úr landi og ég vil ekki trúa því að það sé krafa okkar hér á þingi eða Seðlabankans eða nokkurs aðila. (ÖS: Það er hvati í því fyrir kröfuhafa.) Það er hins vegar hugmynd frá kröfuhöfum, er það ekki? Ég sé ekki að hvatinn sé þar. Ég sé að það er hugmynd þeirra að stilla þeim upp með þessum hætti. En ég held að við ættum ekki að stilla stöðugleikaskilyrðunum upp þannig eða kalla eftir því að það verði meiri hvati fyrir kröfuhafa að selja bankana úr landi en að selja þá hér innan lands. Ég held að það væri mjög afleitt og ég vil ekki trúa því. En ég hef engar upplýsingar um að svo sé. En það getur vel verið að það séu hugmyndir þeirra í því tilboði sem þeir koma með eða það sé í tillögum þeirra, ég hef heyrt það. Ég hef lýst því áður að mér lítist ekki vel á það. En allt þetta hefur sem sagt ekki mér vitanlega verið samþykkt endanlega.