144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, svokallað nauðasamningafrumvarp. Nefndarálitið liggur frammi á þskj. 1610 og ætla ég að leyfa mér að vísa til þess að meginefni til ásamt þskj. 1612, sem eru þær breytingartillögur sem nefndin gerir í málinu.

Eins og fram kom í ræðu á undan, framsögumanns nefndarinnar í máli um stöðugleikaskatt, þá hefur nefndin fengið til sín fjöldamarga gesti vegna þessa máls og kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir, bæði embættismenn og sérfræðinga á ýmsum sviðum. Fundirnir hafa verið margir og allir afar gagnlegir fyrir nefndarmenn.

Í vinnu nefndarinnar hafa fjölmörg atriði eða nánast öll ákvæði frumvarpsins verið tekin til ítarlegrar skoðunar og í samræmi við sjónarmið sem eru reifuð í nefndaráliti, og ég mun að einhverju leyti reifa í ræðu minni, eru lagðar til ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Vinna nefndarinnar hefur með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem eru til staðar tekið mið af sjónarmiðum um að tryggja að nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja verði sem skilvirkast en þó með þeim hætti að ekki sé gengið á rétt minni kröfuhafa og að forsendum um efnahagslegan stöðugleika verði ekki vikið til hliðar.

Mig langar þá að byrja að víkja örlítið að 1. gr. frumvarpsins, lið a, en fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að millitilvísanir í þeirri grein væru rangar. Það er nú leiðrétt í breytingartillögu og ég ætla ekki að rekja það frekar.

Þá komu fram fyrir nefndinni ýmis sjónarmið er varða ábyrgðarleysi slitastjórna. Eftir ítarlega skoðun á málinu varð það niðurstaða nefndarinnar að gera engar breytingar frá frumvarpinu sjálfu þar að lútandi.

Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að til þess að geta lokið nauðasamningi gætu fjármálafyrirtæki í slitum þurft að afla fjármuna til þess að greiða forgangskröfuhöfum. Að mati nefndarinnar gætu slíkar ráðstafanir talist eðlilegar með hliðsjón af sérstöku eðli þeirra skipta sem um ræðir. Nefndin leggur því til að slitastjórnir fái heimild til gangast undir frekari fjárskuldbindingar sé það til hagsbóta fyrir kröfuhafa og í tengslum við nauðasamninga. Nefndin hefur þess vegna lagt til breytingu á c-lið 1. gr. frumvarpsins sem endurspeglar það sjónarmið.

Það er hins vegar rétt að taka fram að ef fjármálafyrirtæki í slitameðferð fer með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki gildir 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um slíkar lánveitingar. Það er rétt að það sé áréttað hér að lánveitingar geta ekki fallið undir reglur laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og ný lagaheimild felur ekki í sér undantekningu frá lögum um gjaldeyrismál.

Á fundum nefndarinnar var rætt um tilvísun c-liðar 1. gr. frumvarpsins til hagsmuna kröfuhafa. Eins og ég nefndi áðan er hér lagt til að lán til frekari fjárskuldbindinga séu heimil sé það til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Það er mat nefndarinnar, og rétt að árétta það, að slíkt mat, hvort um sé að ræða hagsmuni kröfuhafa, sé alfarið í höndum slitastjórnar og eftir atvikum kröfuhafafundar. Því má telja að til dæmis ráðstöfun á eignum og réttindum fjármálafyrirtækis teljist þjóna hagsmunum kröfuhafa ef hún er samþykkt á kröfuhafafundi sem boðað er til í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.

Þá ætla ég að víkja örstutt að 2. gr. frumvarpsins, en við hana leggur nefndin til nokkrar breytingar. Frumvarpið mælir fyrir um að í stað þess að miðað sé við þrjá mánuði fyrir frestdag — og þetta kemur fram í c-lið 2. gr. — verði miðað við frestdag. Hér þarf að hafa í huga að reglum um frestdag við gjaldþrotaskipti er ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhafar misnoti reglur um atkvæðamagn við kosningu um frumvarp um nauðasamning á kostnað annarra kröfuhafa með því að framselja kröfur eða hluta þeirra, t.d. í þeim tilgangi einum að fjölga höfðatöluatkvæðum, þannig að kröfu sem einungis hefði átt að fylgja eitt höfðatöluatkvæði fylgja eftir framsalið tvö atkvæði. Með tillögu frumvarpsins um að færa fyrrgreint tímamark fram að þeim degi þegar fjármálafyrirtæki er tekið til slita var tekið mið af því að erfitt gæti verið að greina og staðreyna framsal krafna á hendur fjármálafyrirtækis í slitum þremur mánuðum fyrir frestdag, eins og er meginregla við gerð nauðasamninga.

Í umsögnum slitastjórna voru færð fram efnisleg og sannfærandi rök fyrir því að tímamarkið yrði fært enn framar. Það markast ekki síst af þeirri staðreynd að kröfur á hendur búunum hafa gengið kaupum og sölum í mun meira mæli en áður hefur þekkst við slit eða nauðasamningsumleitanir íslenskra fyrirtækja og í sumum tilvikum kann það að vera hreinlega ómögulegt að greina hver hafi farið með kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum fram að þeim tíma að kröfuhafi lýsti kröfu sinni við slitin.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að miðað verði stöðu krafna við lok kröfulýsingarfrests.

Umsagnir um d-lið 2. gr. frumvarpsins lutu einkum að tveimur atriðum, annars vegar að sambandi milli hlutfalls þeirra sem samþykkja nauðasamning fjármálafyrirtækis með atkvæðum sínum og eftirgjafar krafna, og hins vegar að heimildum rétthafa skuldabréfa í vörslu fjárvörslusjóða til að greiða atkvæði um nauðasamning fjármálafyrirtækis. Á fundum nefndarinnar voru rædd ýmis sjónarmið tengd þessum atriðum, sem rakin eru ítarlega í nefndarálitinu.

Að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu leggur nefndin til reglu um að 90% kröfuhafa miðað við kröfufjárhæð nægi ætíð til að samþykkja frumvarp að nauðasamningi, jafnvel þó að fyrirhugaðar afskriftir séu hærri.

Í umsögnum slitastjórna fjármálafyrirtækja og þeirra sem sinna hagsmunagæslu fyrir kröfuhafa var einnig bent á ákveðin álitamál sem tengjast atkvæðum rétthafa skuldabréfa í vörslu fjárvörslusjóða, sem er algengt fyrirbæri í ýmsum löndum erlendis, einkum þó í hinum enskumælandi heimi. Fyrir nefndinni var rakið að í aðdraganda fjármálahrunsins gáfu íslensk fjármálafyrirtæki út skuldabréf undir lögsögu New York-fylkis í Bandaríkjunum. Um var að ræða stórar skuldabréfaútgáfur undir sérstökum útgáfurömmum þar sem tíðkast að sérhæfðir fjárvörslusjóðir séu vörsluaðilar svokallaðra heildarskuldabréfa, sem síðan framselja hluta af réttindum skuldabréfanna til rétthafa. Slíkir fjárfestar eiga ekki kröfu á útgefanda skuldabréfsins heldur á fjárvörslusjóðinn sjálfan.

Fyrir nefndinni voru rakin sjónarmið um að sökum réttaróvissu í útgáfuríki þessara heildarskuldabréfa er ólíklegt að þeir aðilar sem fara málefni fjárvörslusjóða, sem eru svokallaðir vörslumenn, muni greiða atkvæði um frumvarp til nauðasamnings fjármálafyrirtækja. Það gæti verið bagaleg niðurstaða og í því ljósi er eðlilegt að heimila rétthöfum, sem hafa sannarlega hagsmuni af atkvæðagreiðslu um nauðasamning, að fara með atkvæðisréttinn á grundvelli umboðs frá fjárvörslusjóðnum. Nefndin leggur því til breytingu þess efnis.

Ég ætla þá að víkja að f-lið 1. mgr. 2. gr., sem lýtur að mati Seðlabanka Íslands á áhrifum nauðasamnings á stöðugleika. Á fundum nefndarinnar var rætt að mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum nauðasamnings og því hvort hann hafi áhrif á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika sé mikilvæg forsenda þess að hægt sé að tryggja eftir því sem mögulegt er að slit fallinna fjármálafyrirtækja tefli ekki þessum efnahagslega stöðugleika í tvísýnu.

Nefndin áréttar þann skilning sinn að við mat á undanþágubeiðnum slitastjórna verði litið til markmiða um efnahagslegan stöðugleika og almannahag. Af því leiðir að hvorki verði gengið á gjaldeyrisvaraforðann né lífskjör hér á landi. Nefndin áréttar einnig að í samræmi við gjaldeyrislög skulu undanþágur bankans aðeins veittar að höfðu samráði við ráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum þeirra fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Það er rétt að benda á það að orðalag 1. mgr. f-liðs 2. gr. frumvarpsins verður ekki skilið öðruvísi en svo en að það sé mat slitasjórnar fjármálafyrirtækisins, sem er undir slitum, hvort vottorð Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum sé aflað fyrir eða eftir samþykki kröfuhafa á frumvarpi að nauðasamningi.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að breyta ákvæðum tekjuaskattslaga í samræmi við ábendingar sem nefndin fékk og leggur því til tvenns konar tímabundnar breytingar á ákvæðum laga um tekjuskatt með nýju ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi tilgreinir ákvæðið atriði sem ekki ber að telja til tekna við ákvörðun tekjuskatts og í öðru lagi er um að ræða breytingu sem varðar afmörkun skattstofns við ákvörðun sérstaks fjársýsluskatts.

Þessar breytingartilllögur koma fram á skjali með öðrum breytingartillögum og eru tilgreindar með stafliðum a og b. Breytingin í a-lið felur í sér að eftirgjöf skulda eða annarra skuldbindinga sem fer fram í tengslum við gerð nauðasamninga lögaðila og sem gerð er gegn því að skuldari láti kröfuhafa í té hlutafé í sjálfu sér sem gagngjald skuli ekki teljast til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna ársins 2015. Sérstaklega er áréttað að með ákvæðinu teljist eftirgjöf skulda og móttaka hlutafjár í hinu skuldsetta félagi hvorki til skattskyldra tekna hjá skuldara né kröfuhafa. Staða þeirra rekstraraðila sem fá eftirgefnar skuldir er í flestum tilvikum með þeim hætti að rekstrartap er umtalsvert og gengur á móti tekjufærslunni. Við þær aðstæður kemur því í raun ekki til neinnar skattlagningar vegna tekjufærslu á eftirgefnum skuldum. Gert er ráð fyrir því að rekstrartap ársins og yfirfært tap vegna fyrri ára verði alltaf jafnað fyrst á móti tekjufærslu áður en til þess kemur að tekjur vegna eftirgjafar skulda verði undanþegnar skattskyldu í samræmi við tillögu frumvarpsins.

Breytingin í b-lið hins vegar felst í því að kveða jafnframt á um það að við ákvörðun álagningarstofns vegna sérstaks fjársýsluskatts skuli ekki taka tillit til tekna sem myndast við almenna eftirgjöf skulda í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila, samkvæmt 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Benda má á að breytingin samkvæmt a-lið tekur einungis til þess að ekki skuli telja til tekna hjá kröfuhöfum og skuldurum tekjur sem kynnu að myndast við eftirgjöf skulda gegn afhendingu hlutabréfa í hinu skuldsetta félagi.

Nefndin áréttar að þessar tímabundnu breytingar eru lagðar til í því skyni að greiða fyrir vinnu við gerð nauðasamninga þeirra aðila sem verða skattskyldir samkvæmt frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt.

Nefndinni bárust ýmsar athugasemdir vegna þess frests sem 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti kveður á um til handa kröfuhöfum að lýsa enn þann dag í dag kröfum sínum í þrotabúið. Í þeim athugasemdum er nefndinni bárust vegna þessa var teflt fram þeim sjónarmiðum að mikilvægt sé að vissa liggi fyrir því sem fyrst hvort kröfur muni berast við slitin og áður en atkvæði verða greidd um frumvarp að nauðasamningi. Að gættum framangreindum sjónarmiðum um vernd kröfuhafa er fallist á að koma til móts við framangreind sjónarmið með tillögu sem lýtur að því að kröfum sem stofnast hafa fyrir tiltekinn tíma og sem beint verður til slitastjórnar verði að vera lýst með sannanlegum hætti fyrir slitastjórn eftir reglum gjaldþrotaskiptalaga.

Hins vegar er rétt að árétta að í þessari breytingartillögu felst engin efnisbreyting á ákvæðum 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Tillögunni er ætlað að taka af öll tvímæli um að kröfum sem stofnast hafa fyrir 1. september 2014 verði að lýsa fyrir slitastjórn fyrir 15. ágúst 2015 vilji kröfuhafi styðja sig við 1. tölulið eða 5. tölulið 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Komi slík krafa fram fyrir 15. ágúst 2015 verður því næst að meta hvort hún uppfylli að öðru leyti þau skilyrði sem 118. gr. setur.

Á fundum nefndarinnar var ítarlega fjallað um 4. gr. frumvarpsins sem er ekki eins tæknileg og greinarnar þar á undan og ég hef að nokkru leyti komið inn á. En 4. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir heimild fyrir Seðlabanka Íslands til þess að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta, svonefndum stöðugleikaframlögum.

Rétt er að hafa í huga að ákvæði 2. mgr. 34. gr. laga um Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir því að hagnaður Seðlabankans renni til ríkissjóðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ef stöðugleikaframlög, sem 4. gr. kveður á um, gengju fyrst til Seðlabankans og féllu síðan ríkissjóði í skaut á þeim grundvelli yrði meðferð og ráðstöfun þeirra ekki bundin sömu takmörkunum og fram koma í 2. mgr. 1. gr. frumvarps til laga um stöðugleikaskatt og hér hefur verið lýst áður í ræðu á undan mér. Nefndin taldi því nauðsynlegt að gera breytingar á 4. gr. frumvarpsins í ljósi markmiða þessa frumvarps og líka frumvarpsins um stöðugleikaskatt. Markmiðum frumvarpsins um stöðugleikaskatt hefur verið lýst ágætlega í ræðu framsögumanns þess máls. Til þess að ná markmiðum þessara beggja frumvarpa er mikilvægt að þeim fjármunum sem renna í ríkissjóð við skattlagninguna verði ráðstafað í samræmi við markmið um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Nefndin áréttar að sömu sjónarmið eiga einnig við um stöðugleikaframlag það sem 4. gr. frumvarps þessa fjallar um.

Að baki heimildar Seðlabanka Íslands til að taka á móti stöðugleikaframlagi liggja þannig ekki sjónarmið um tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur er tilgangurinn sá að tryggja að afnám hafta ógni ekki stöðugleika efnahagskerfisins og almannahagsmunum hér á landi.

Í samræmi við framangreind sjónarmið leggur nefndin því til breytingu á 4. gr. frumvarpsins á þann veg að þau verðmæti sem Seðlabankinn veiti viðtöku í formi stöðugleikaframlags renni í ríkissjóð en verði hjá bankanum til varðveislu, og að meðferð og ráðstöfun þeirra verði að samrýmast markmiði um stöðugleika og vera hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt, nái það fram að ganga. Einnig er lagt til að ráðherra verði heimilt að fela sérhæfðum aðila, sem starfar í umboði bankans, að annast vörslu verðmætanna og umsýslu með þau í ljósi þess að það liggur nú þegar fyrir að innlausn þeirra gæti tekið einhvern tíma. Það er þó ekki endilega víst.

Virðulegur forseti. Ég hef reifað helstu sjónarmið breytingartillagna þeirra sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til í máli þessu. Sjónarmið að öðru leyti eru reifuð í nefndarálitinu og ég vísa til þess. Ég vil að lokum geta þess að það ríkti mikil samstaða í nefndinni við afgreiðslu þessa máls, þverpólitísk, ef mönnum finnst það skipta máli, og einhugur sérstaklega um það markmið frumvarpsins að tryggja hér stöðugleika til langframa við afnám fjármagnshaftanna.

Ég vil þá geta þess að undir þetta nefndarálit rita sú er hér stendur og hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson.

Hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason styðja málið og sjónarmið nefndarinnar sem fram koma í nefndaráliti því sem ég hef nú rakið, en þeir hafa kosið allt að einu að skila séráliti um málið.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og annarra starfsmanna, einkum og sér í lagi fyrir starfið í þessu mikilvæga máli.