144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér töluðu saman tvær hv. þingkonur sem báðar sitja í efnahags- og viðskiptanefnd. Önnur þeirra, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, sagðist einfaldlega ekki skilja sumt af þessum stöðugleikaskilyrðum og ekki hafa fengið að sjá þau. Ég tek undir þær athugasemdir.

Hv. þingmaður sem talaði hér áðan, Sigríður Andersen, sagðist nánast ekkert þekkja til afleiðinga af sölu bankanna. Það vekur mér ákveðinn ugg. Eins og ég sagði fyrr í andsvari er ég búinn að reyna það sem ég get til að skilja til hlítar þessi stöðugleikaskilyrði. Ég skil nákvæmlega hugmyndafræðina á bak við stöðugleikaskattinn, ég skil af hverju hann er 39% og hann er pottþéttur. Mér líður vel með hann og ég er klár á því að hann tryggir fjármálalegan stöðugleika þjóðarinnar. En ég er ekki nærri því eins viss með stöðugleikaskilyrðin og þá leið. Þau voru ekkert kynnt fyrr en búið var að kynna allt bixið í Hörpunni. Ég verð bara að treysta á mína menn í nefndinni. Ég hef sagt það þegar að ég treysti hv. þm. Frosta Sigurjónssyni mjög vel. Hann er mjög krítískur á þetta og það gefur mér ákveðna þægindatilfinningu eða vinnur gegn óþægindatilfinningunni. En hver veit það og hver getur sagt það að stöðugleikaframlögin séu næg? Hver metur það? Ekki getur hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagt frá því og þá sennilega ekki hv. þm. Sigríður Andersen. Hv. þingmaður vísaði frá sér pælingum um bankana. En það er ekki hægt. Í nefndinni komu fram upplýsingar sem benda til þess að það sé fjárhagslegur hvati fólginn í því fyrir kröfuhafana að selja bankana til erlendra fjárfesta. Það munar 70 milljörðum. Ég fæ það út úr gögnum sem ég hef séð. Við vitum hins vegar hvað það þýðir. Það þýðir að viðkomandi eigendur munu reyna allt sem þeir geta til að ná mestu út úr bönkunum. Vextir munu hækka á Íslandi og (Forseti hringir.) þrýstingurinn mun aukast á gjaldeyri og gengið. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hún sannfærð um að það sé bara í lagi að stimpla það að gengið sé frá því að erlendir fjárfestar fái að kaupa bankana? Er það í þágu okkar neytenda og samfélagsins?