144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú er það svo að auðvitað liggja fyrir einhver viðmið Seðlabankans um stöðugleika til langs tíma. Það má heldur ekki gleyma því að nú þegar eru fyrir hendi heimildir í lögum um gjaldeyrismál, heimildir Seðlabankans til að veita undanþágu frá gjaldeyrislögum. Seðlabankinn hefur nú þegar veitt undanþágur frá gjaldeyrislögum. Hann gerir það nú þegar með ákveðin sjónarmið að leiðarljósi, með sjónarmið um efnahagslegan stöðugleika, jafnræði og þar fram eftir götunum.

Það er auðvitað ekki í einhverju tilgangsleysi sem það er lagt til að undanþágur Seðlabankans verði kynntar hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur þá full tök á að koma með athugasemdir ef hún hefur þær við mat Seðlabankans á áhrifum þeirra stöðugleikaframlaga sem slitabúin munu inna af hendi eða áhrifum af undanþágum til handa slitabúunum. Ég tel því að þingið verði ekki og geti ekki verið stikkfrí í framhaldinu, alls ekki. Ég tel mjög mikilvægt að þingið láti sig það varða og fylgist með því hvaða mat verður lagt til grundvallar af hálfu Seðlabankans við veitingu undanþágnanna sem þetta frumvarp felur í sér, sem ég var að flytja framsögu um vegna nefndarálits. (Forseti hringir.) Meira get ég ekki reynt að særa út úr hv. alþingismönnum, þeirra framlag í þessu.