144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel nú örla á örlitlum misskilningi hvað varðar þessar tvær leiðir, ef við einföldum málið og tölum um tvær leiðir þegar við vísum til stöðugleikaskattsins eða stöðugleikaframlagsins. Þetta eru ekki tvær leiðir í samkeppni, þær eru það ekki. Ég legg áherslu á það sem fram hefur komið hér að þetta er ekki tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Þetta er ekki spurning um hvað ríkissjóður getur grætt mikið, þetta er spurning um með hvaða hætti við hleypum eigendum erlends gjaldeyris úr landi með það í massavís. Það snýst um það.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segist hafa heyrt það einhvers staðar að kröfuhafar hlæi núna, þeir séu að græða vegna þess að þeir sleppi við skattinn. Nú liggur ekkert fyrir um það (ÖS: Ég las það einhvers staðar.) að öllum slitabúunum takist að gera nauðasamninga. Við skulum ekki gera lítið úr flækjustigi við gerð nauðasamninga og þeim margvíslegu hagsmunum sem kröfuhafar hafa í slitabúinu. Það er alls ekki sjálfgefið að öllum þessum slitabúum takist að gera nauðasamninga. Ég meina, ef þau meta það þannig að það sé hagkvæmara og farsælast þá leggja þau auðvitað allt kapp á að gera það núna fyrir áramótin, ég hef enga trú á öðru en þau reyni það. Það kann að vera að kröfuhafar samþykki ekki nauðasamning og kjósi frekar að borga hér skatt, það kann að vera, og vera hér áfram. Menn hafa sumir sagt að þeir hafi það svo gott, kröfuhafar hér á Íslandi, að þeir vilji ekki fara, þannig að þetta er nú ekki allt sjálfgefið. Ég vil að endingu minna á að auðvitað er það ekki þannig að hægt sé að sjá alla hluti fyrir. (Forseti hringir.) Stjórnmálamenn sem þannig hugsa og ætla að reyna að stýra landinu með því hugarfari, það veit ekki á gott og tíðkast í löndum miklu fjær okkur og sem við viljum ekki miða okkur við.