144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir því og tel það skynsamlegt hjá hv. þingmanni að temja sér aðferð Tómasar, eins og hann segir, og vilja leggja höndina í sárið til að geta trúað. Það er einmitt gott að hafa hér menn sem spyrja gagnrýninna spurninga og láta þá aðra menn hafa fyrir því að rökstyðja og koma með svörin.

Það er vissulega hárrétt að það er ýmislegt óljóst þegar kemur að nauðasamningaleiðinni og stöðugleikaframlögunum og erfitt að glöggva sig á annars vegar hinni fjárhagslegu útkomu ríkisins, sem er ein hliðin, og svo náttúrlega líka hinu, að þau séu að öllu leyti fullnægjandi til að markmið frumvarpsins náist fram. Í þeim efnum vona ég að ítarlegt nefndarálit okkar hv. þm. Árna Páls Árnasonar og mín sé frekar hjálplegt en hitt. Við höfum lagt okkur fram um að reyna að fara nokkuð rækilega yfir málið þar á nokkrum blaðsíðum.

Svo verð ég að segja varðandi stöðugleikaskilyrðin að auðvitað hefði maður fagnað því að þau hefðu verið birt og við spurðum að því af hverju ekki mætti birta þau. Það komu kannski ekki skýr svör en við skynjuðum að eitthvað væri viðkvæmt við að birta þau eða þau útlistuð í smáatriðum. Kannski er það hugsað til þess að Seðlabankinn hafi svolítið svigrúm gagnvart því þegar hann fær tillögurnar og geti á þeim grunni farið betur ofan í saumana á því að það sé að öllu leyti fullnægjandi og jafnvel óskað eftir breytingum ef með þarf. Það er í raun ekki síst það sem ég treysti á í sambandi við stöðugleikaframlagaleiðina að Seðlabankinn á þrátt fyrir allt eftir að gefa samþykki sitt. Og það hlýtur að vera þannig að ef hann uppgötvar veilur einhvers staðar í tilboðunum þá geti hann eitthvað átt við það.

En hið pólitíska svigrúm takmarkast kannski af því að ef lykilkröfuhafar líta svo á að í gildi sé óformlegt samkomulag eða heiðursmannasamkomulag getur allt farið í baklás eða menn missa völdin og fá ekki samningana samþykkta í hópi kröfuhafanna ef súrnar í samskiptunum o.s.frv.

En ég tel samstarf eða aðkomu Seðlabankans líka mjög mikilvæga í þessum efnum.