144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Mér finnst umbúnaðurinn ekki vera eins ríkur og hann hefði getað bestur orðið, ég ætla að vera alveg hreinskilinn með það. Ég nefndi það í nefndinni og líka við formenn stjórnarflokkanna og fulltrúa stjórnarflokkanna í nefndinni að ég hefði kosið pólitískt samkomulag til viðbótar. Ég hefði líka kosið ítarlegri lagaákvæði. Ég túlka þó þau lagaákvæði sem nú eru þarna fram komin með þeim hætti eins og ég rakti áðan að ekki sé hægt að seilast í þessa fjármuni við einfalda fjárlagaafgreiðslu í þinginu, þannig að fjárlaganefnd geti t.d. ekki farið og sótt þetta fé bara milli umræðna. Ég túlka þetta líka þannig að ráðherra sé bundinn við nokkurra mánaða aðdraganda áður en fjárlagafrumvarp er lagt fram og ef Seðlabankinn veitir álit og það kemur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þá verði það heyrumkunnugt ef Seðlabankinn verður heillum horfinn og mönnum hefur tekist að útrýma þar faglegri yfirstjórn; það komi alla vega fyrir nefndina með þeim hætti að hún geti sett fram sjónarmið og vonandi verða ekki allir heillum horfnir í henni.

Auðvitað er erfitt í sjálfu sér að binda framtíðarþing að öllu leyti í lagaramma. Og þeirri kenningu hefur verið fylgt hér á Alþingi sem ég er í grundvallaratriðum ósammála að ekkert takmarki stjórnarskrárbundinn rétt þingmanna til að leggja fram frumvörp, m.a. megi þeir leggja fram breytingartillögur sem stangast á við lög. Þetta er kenning sem hefur því miður verið ítrekuð hér, síðast á þessum vetri með dæmalausum breytingartillögum við rammaáætlun. Þar af leiðandi viðurkenni ég að miðað við ráðandi viðhorf hér í þinginu er ekki auðvelt að setja lagaákvæði sem hemja rétt þingmanna til að ráðstafa fé með þessum hætti eða rétt stjórnvalda til að (Forseti hringir.) ráðstafa þessu með lögum með öðrum hætti í framtíðinni, vegna þess að almenn lög geta auðvitað ekki trompað önnur síðari almenn lög.