144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir svörin. Það er mikilvægt að það sé pólitísk samstaða um þetta, ég deili þeirri skoðun, og einhugur um það hvernig skuli fara með. Það er tryggilega frá þessu gengið í lagafrumvarpi um stöðugleikaskatt í 1. gr., um þá fjármuni sem kunna að falla til við skattlagningu. Samkvæmt því frumvarpi skulu þeir renna í ríkissjóð og ráðstöfunin skal samrýmast þeim grundvallarmarkmiðum að efnahagslegum stöðugleika verði ekki ógnað og efnahagsleg velferð og almannaheill sé höfð að leiðarljósi. Þetta er lykilatriði og hv. þingmaður fór í ræðu sinni vel yfir þær breytingar og ráðstafanir sem nefndin stóð að til þess að það væri samhljómur þarna á milli, á milli þessara tveggja frumvarpa sem við ræðum.

Hv. þingmaður kom inn á þennan freistnivanda og að það væri erfitt að tryggja þetta í lögum. Ég vil þá spyrja hv. þingmann um vangaveltur hans um það hvernig við getum sem best tryggt pólitíska samstöðu um að uppfylla skyldur og markmiðin sem við ræddum svo vel í nefndinni, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, og felast í þessum frumvörpum að út frá þessu ferli, kjósi aðilar svo að fara nauðasamningsleið, þá þurfi Seðlabankinn að meta það, það þurfi ráðherrasamráð og samráð við hv. efnahags- og viðskiptanefnd.