144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Góður áfangi á þeirri leið er auðvitað ræða eins og sú sem hv. þingmaður flutti hér, verandi þingmaður Framsóknarflokksins, annars stjórnarflokksins, og hann talar fyrir sitt leyti alveg skýrt. Ég hefði haldið að annað framlag hefði getað verið samkomulag allra flokka um sameiginlega yfirlýsingu. Enn ein leið hefði verið ef hæstv. ráðherrar, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, hefðu nú heiðrað okkur með nærveru sinni, tekið til máls í þessari umræðu og gefið yfirlýsingu fyrir hönd sinna flokka. Og ég er ekki úrkula vonar um að það geti gerst og vil beina því til hv. þingmanns hvort hann geti ekki haft áhrif á sinn formann til þess að við höfum það kannski þannig við 3. umr. málsins að formenn flokka komi og gefi yfirlýsingu þessa efnis. Það gæti verið mjög góður bragur á því.

Freistnivandinn er raunverulegur. Hæstv. fjármálaráðherra rakti á mánudegi þegar Hörpukynningin fór fram hversu mikilvægt það væri að þessir fjármunir færu ekki út í hagkerfið. Hann hélt fund á föstudeginum á eftir í hádegi í Valhöll um skattalækkanir sem væru fram undan. Það tók ekki nema fimm daga fyrir hann að bila í trúnni. Þetta sýnir bara í hnotskurn hversu hættulegt þetta er. Það er svo auðvelt seinna að sannfæra sjálfan sig um að aðstæður séu bara allt, allt öðruvísi en við gerðum ráð fyrir í júlíbyrjun 2015 þegar við vorum að samþykkja þetta. Og ég sé alveg fyrir mér að heyra við fjárlagagerð eftir ár, á kosningavetri, ræður um það að menn hafi ekki séð fyrir sér að það væri ekki hægt að gera þetta, jú, jú, auðvitað séu núna allt, allt aðrar aðstæður, alveg breyttar aðstæður og þetta sé allt í lagi. Og þá verður búið að moka út úr Seðlabankanum og fylla þar allt af einhverjum pólitískum pótintátum og þeir segja: Jú, jú, þetta er allt í lagi.

Það er þessi hætta sem er vakandi, hún er raunverulega fyrir hendi og við verðum að verjast henni.