144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þau góðu orð sem hann hafði um stuðning við það meginmarkmið að þessir fjármunir yrðu ekki nýttir til almennra útgjalda ríkisins og að menn mundu sameinast um að standast freistinguna að seilast í þá í aðdraganda kosninga. Hv. þingmaður hins vegar gerði mér upp skoðanir og öðrum þeim sem sagt hafa að ekki verði hægt að afnema höft til fulls með íslenska krónu, það hef ég margsinnis sagt. Enda er enginn stjórnarþingmaður sem heldur því fram að verið sé að afnema höft með þessari aðgerð.

Fjármálaráðherra talar um losun hafta. Það er vissulega alveg rétt, þetta er losun tiltekins vanda. Við vorum alltaf með áætlanir uppi um nákvæmlega þessa aðgerð á árunum 2012–2013, eins og ég rakti ítarlega í máli mínu áðan. Við vorum meira að segja með aðgerð sem við vorum tilbúin að ráðast í í janúar til febrúar 2013 og hún var kynnt af hálfu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra fyrir formönnum stjórnmálaflokkanna. Hæstv. núverandi landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að sú aðgerð væri landráð. Þess vegna var ekki ráðist í það fyrir kosningar því að ekki var hægt að hafa frið um þá aðgerð. En auðvitað vorum við tilbúin að ráðast í hana. Sú aðgerð var mjög svipuð því sem nú er verið að gera, eiginlega alveg eins, og við vorum tilbúin með hana jafnvel þó að við værum ekki að taka upp evru, enda snýst þetta mál hér ekki um það. Það þarf ekki að taka upp evru til að ná þessum árangri. Hér er bara verið að vinna á stöðu sem við sköpuðum með því að fella erlendar eignir þrotabúanna undir höft og sú úrvinnsla er fullkomlega möguleg. Eftir stendur hins vegar hver peningastefnan verður þegar búið er að leysa úr þessum vanda og öðrum vanda sem eftir er óleystur. Hvað þolum við þá? Það liggur alveg fyrir af hálfu Seðlabankans að það verður ekki fullt gjaldmiðilsfrelsi. Það verða hraðahindranir (Forseti hringir.) og þar af leiðandi verða ákveðin höft áfram við lýði. Menn munu reyna að láta þau heita eitthvað annað, en höftin verða ekki að fullu afnumin með íslenska krónu. Það er stefna Seðlabanka Íslands í dag.