144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef hlustað vel á umræðuna sem hefur farið fram hér í dag um þetta mikilvæga mál sem er tvíþætt, annars vegar um stöðugleikaskatt svokallaðan og síðan svokölluð stöðugleikaskilyrði eða samningaleið sem menn deila nú um hvaða nafni eigi að nefna en er náttúrlega að uppistöðu til byggð á samkomulagsmöguleikum.

Ég segist hafa hlustað vel á umræðuna, líka þau ummæli sem féllu hér í dag um gagnsæið og skortinn á því. Þegar vakin var athygli á því að málið væri ekki gagnsætt þá var sagt að það væri nú óskandi að lífið væri einfalt, svo einfalt að það væri hægt að setja það upp í excel-skjal sem öllum væri skiljanlegt en þannig væri það nú ekki og þannig væri því ekki farið með þetta flókna mál.

Ég verð að segja að mér finnst leggjast lítið fyrir ýmsa þá sem gagnrýndu Icesave-samningana á sínum tíma fyrir leyndarhyggju og skort á gagnsæi þegar hér er um að ræða frumvarp og leiðir sem fjalla um gríðarlegar upphæðir, mörg hundruð milljarða króna og við fáum að hluta til ekki að sjá gögn sem á að byggja á og að hluta til eru þau svo ógagnsæ að fáir virðast skilja þau til hlítar. Þetta er bara staðreynd málsins. Engu að síður á að þjösna þessu í gegn á tíu dögum. Á tíu dögum á að þjösna í gegn þessu mikla, dýra hagsmunamáli sem snertir þjóðfélagið og okkar efnahag.

Ég vil byrja á því að gagnrýna þessi vinnubrögð. Með þessum frumvörpum og þeirri leið sem er boðuð er í reynd verið að fela Seðlabanka Íslands ígildi skattlagningarvalds einfaldlega vegna þess að auðnist föllnu viðskiptabönkunum og sparisjóðum að ljúka uppgjöri fyrir árslok 2015 munu þeir ekki teljast til skattskyldra aðila samkvæmt 3. gr. þessa frumvarps. Hver á að hafa umsjón með því og að þeim skilyrðum sé fullnægt sem eru útlistuð í frumvarpinu og í áliti nefndarinnar? Það er Seðlabanki Íslands. Hann á að hafa eftirlit með þessu og veita aðhald samkvæmt almennum reglum sem um þetta eru settar. Þar er um gríðarlega háar upphæðir að tefla. Okkur er sagt að Seðlabankinn muni gera efnahags- og viðskiptanefnd grein fyrir stöðu málsins eða framvindunni eftir því hvernig hún þróast, gera efnahags- og viðskiptanefnd grein fyrir ákvörðunum sínum. Þá gæti löggjafinn gripið inn í með lagabreytingu, en valdið er farið út úr þingsalnum þar til að til kæmi ný lagasetning.

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst margt í þessu vera mjög óljóst, mjög ógagnsætt og ég gagnrýni að ekki séu öll gögn uppi á borði. Ég er hins vegar tilbúinn til að styðja stöðugleikaskattinn. Hann er mér skiljanlegur og hann er skýr nálgun. Ég hef grun um að ástæðan fyrir því að menn vilji ekki halda sig við þá leið eina sé hræðsla við kröfuhafana, að þeir muni stefna ríkinu fyrir dómstóla, reyna að hafa sitt fram þar. Ég ber ekki þann ótta í brjósti. Ég hef miklu meiri trú á því að fullvalda ríki eins og okkar geti sett almenn skattalög og að þessum aðilum beri að hlíta þeim eins og okkur öllum ber að greiða skatta samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setur. Ef við ættum þá kosti sem greiðum tekjuskatt og útsvar og fasteignagjöld að ganga til samninga við ríki og sveitarfélög um leiðir til að sleppa við að greiða okkar gjöld, ætli það yrðu ekki einhverjir sem veldu þá leið og tækju því fegins hendi? En gagnvart þessum aðilum eiga að gilda einhverjar allt aðrar reglur. Og hverjir eru þessir aðilar? Þetta er ekki upphaflegir kröfuhafar, það vita allir. Yfir 90% af kröfuhöfum eru komnir til sögunnar eftir hrun og sumir hverjir keyptu sína hluti á mjög lágu verði, allt niður í 4% að nafnvirði. Núna á síðustu vikum hafa menn verið að kaupa á heldur hærra verði. Það er sagt að Soros hafi keypt hluti sem að nafnvirði eru um 44 milljarðar á 27–29% af nafnvirði. Þetta eru upphæðirnar og þetta eru aðilar sem koma hingað inn til þess að maka krókinn. Og ég er ekki í hópi þeirra sem finnst of í lagt með 39% skatti, mér finnst það lágur skattur og ég tek undir með Indefence og ég tek undir með gagnrýnum hagfræðingum eins og Lilju Mósesdóttur (Gripið fram í: Og Össuri Skarphéðinssyni.) og Össuri Skarphéðinssyni er kallað hér úr þingsalnum — vill hann fara í hærri skattprósentu? Ég hef ekki heyrt marga tala fyrir því, en ég mundi taka undir það. Menn eru orðnir óskaplega feimnir að tala um háa skatta jafnvel á hátekjufólk. Ég var minntur á það á ráðstefnu sem ég sótti fyrir nokkrum dögum vestur í Kanada að um miðja síðustu öld hefði auðlegðarskattur í Bandaríkjunum verið yfir 90%, það mun hafa verið á dögum repúblikanans og fyrrum hershöfðingjans Dwights Eisenhowers. Þar var þessi skattur yfir 90%. Það var hagfræðingur og fyrrum ráðherra í stjórnum þeirra Obama og Clintons, Roberts Reich, sem minnti okkur á það, 90%, þannig að 39% skattur er lágur skattur miðað við þessar aðstæður. Og ég fæ ekki skilið annað heldur: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það virðist vera orðið algert bannorð að tala um þetta sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, ríkissjóð sem hefur orðið af gríðarlegum fjármunum vegna efnahagshrunsins og hafði um tíma ekki efni á því að endurnýja lágmarksbúnað á Landspítalanum og öðrum sjúkrahúsum landsins? Auðvitað er það siðferðilega rétt að teknir séu inn peningar til að bæta þennan skaða og ég tek undir sjónarmið þeirra sem hafa talað fyrir slíku.

Annað sem ég verð að segja er að ég á óskaplega erfitt með að skilja er hvað það er hrikaleg vá fyrir dyrum ef umtalsverðir fjármunir streyma í ríkissjóð. Þá skapast voðalegur freistnivandi segja menn, menn gætu væntanlega farið að kaupa röntgentæki á Landspítalann, endurnýja tækjakostinn þar og kannski búa til stöðugleikasjóð til framtíðar sem væri eins konar baksjóður og stuðningssjóður við lífeyriskerfið. Menn hafa áhyggjur af því hér að við höfum ekki fjármuni til að standa við framtíðarskuldbindingar lífeyriskerfisins og þá eru menn að horfa til almannatrygginga og lífeyrissjóðanna líka almennt. Þarna væri kominn sjóður sem við þurfum á að halda vegna þess að í framtíðinni verðum við að breyta lífeyrisfyrirkomulaginu í landinu. Lífeyrissjóðirnir eru orðnir of stórir fyrir okkar litla hagkerfi og ég tel að við þurfum að endurskoða þá blöndu sem við höfum haft og bjuggum við og var öðruvísi saman sett fyrir nokkrum árum eða fyrir 1996 þegar almannatryggingum var ætlað stærra hlutverk en menn ætla þeim nú. Nú vilja menn algerlega sjálfbært lífeyriskerfi sem á síðan að pluma sig á markaði en reynslan er sú að lífeyrissjóðirnir eru orðnir of stórir og gegnumstreymishugsunin er heppilegri fyrir samfélögin vegna þess að lífeyrissjóðirnir, ekki bara hér heldur víðs vegar um heiminn, eru orðnir eitt aðalþrýstiaflið á bak við einkavæðingu. Þeir heimta einkavæðingu velferðarþjónustunnar, innan sjúkrahúsanna o.s.frv. Þangað vilja þeir fara með sitt fjármagn á beit. Þannig að ég fagna hverri krónu sem kemur inn í ríkissjóð en tek að sjálfsögðu undir með þeim sem vilja fara þar skynsamlega með og gera eins og Norðmenn hafa gert með sinn olíusjóð og reynt að hugsa til framtíðar, stöðugleikasjóður sem væri að hluta til fjármagnaður með myndarlegri skattlagningu á hrægammapeningana. Það fyndist mér vera góð leið. (Gripið fram í: Það má ekki kalla þá …) Það má kalla þetta hrægamma, þetta eru ekkert annað en hrægammar, þetta eru vogunarsjóðir, þetta er „vulture capital“, þannig hefur verið talað um þetta í útlöndum og á bara að kalla réttum nöfnum og þessa óskaplegu hræðsla og virðingu og lotningu gagnvart þessu fólki sem þarf endilega að semja við. Það má ekki skattleggja það eins og mig og þig og setja því almennar reglur, nei, nei, það á að setjast lotningarfullur með þessu liði á fundi og samningafundi og komast að niðurstöðu sem það verður sátt við. Þetta er ekki gert við almenna skattgreiðendur í landinu. Nei, það á að gilda allt annað um þessa aðila.

Ég tel að við ættum að halda okkur við skattlagningarleiðina, samþykkja hana. Ég mundi fallast á að hækka prósentuna en ef það er almennur vilji til að halda sig við 39% þá þykist ég vita að þeirri prósentu verði lítið hreyft og ég mun samþykkja það en ég er algerlega á móti hinu, þessu leyndarplaggi og þessari leyndarleið sem er ógagnsæ. Það eru ekki öll gögn uppi á borði og við erum að fela Seðlabanka Íslands ígildi skattlagningarvalds, það er það sem er að gerast. Þetta kann að vera snjallt teflt og ég efast ekki um að menn hafa lagt sig mikið fram og þeir sem sitja í efnahags- og viðskiptanefnd hafa skoðað þessi mál mjög vel og ég vil þakka þeim að sjálfsögðu fyrir þeirra vinnu, en engu að síður er verið að reyna að þjösna flóknu máli sem er algerlega óaðgengilegt hér í gegn á tíu dögum og fela síðan Seðlabankanum ígildi skattlagningarvalds þar sem getur skeikað jafnvel hundruðum milljarða eftir því hvaða ákvarðanir þar eru teknar.

Hvað á Seðlabankinn fyrst og fremst að hugsa um? Hann á að hugsa um stöðugleikann. Hann á að vísu að hugsa um — þetta eru mjög almennar reglur sem þarna eru settar — almannahag, að ekki verði gengið á gjaldeyrisforðann, mjög gott, né lífskjör almennings skert. En ég sé hvergi talað um að hann eigi að reyna að hámarka peningastreymið til ríkissjóðs. Það er ekkert talað um það. Það er orðið algert bannorð. Ég veit ekki hvort það er eitthvað sem tengist þá mögulegum réttarhöldum, ég veit það ekki, að það sé bannað að tala um að þessir aðilar eigi að greiða í ríkissjóð og afla honum tekna. Af hverju má ekki segja það? Af hverju má ekki gera það? Má bara afla tekna frá almennum skattgreiðendum en ekki frá þessu liði? Getur fullvalda þjóð, fullvalda ríki eins og okkar ekki sett almennar reglur um skattlagningu án þess að bila í hnjánum af hræðslu yfir því að lenda með málið fyrir dómstólum og tapa því? Ég sæi íslenskan dómstól dæma gegn löggjafanum í landinu fyrir að setja almenna skattareglu af þessu tagi, ég sæi það gerast. En ég auglýsi eftir þeim sem gagnrýndu hér á síðasta kjörtímabili ógagnsæi í samningum, ógagnsæi í Icesave-samningunum þar sem ekki væri allt uppi á borði. Ég auglýsi eftir því að þeir mæti í þingsal og réttlæti það að ganga frá þessu máli á meðan það er eins ógagnsætt og það er og með því að fela Seðlabanka Íslands ígildi skattlagningarvalds sem á að vera í þessum sal og á hvergi annars staðar heima.