144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hver afstaða hv. þingmanns er til þess hversu langt Íslendingar geta gengið við það að heimta fé af kröfuhöfum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og hef verið lengi að við getum gengið eins langt og við þurfum til að viðhalda fjármálalegum stöðugleika. Til þess eru ýmsar leiðir og tveir valkostir eru greinilega í umræðunni núna. Hinn fyrri er stöðugleikaskattur. Okkur var greint frá því á sínum tíma. Það var gert í ræðu hæstv. forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknar þegar hann lýsti því hvernig hann ætlaði að beita þeim tækjum sem hann hefði til og reyndar tæki sem fyrri ríkisstjórn skapaði og hann treysti sér ekki til að styðja á sínum tíma til að ganga eins langt gagnvart kröfuhöfum og hægt væri. Í kjölfar þeirrar ræðu töluðu menn sem stóðu nálægt stjórnarliðinu um að skatturinn ætti að vera 1.000–1.200 milljarðar kr. En það kom ekki í ljós fyrr en síðar og ekki í ljós fyrr en eftir kynninguna í Hörpu á stöðugleikaskattsfrumvarpinu að á bak við var verið að semja um aðra leið, það er þessi leið hinna valkvæðu stöðugleikaframlaga og uppfyllling svokallaðra stöðugleikaskilyrða.

Ég held að það megi segja að eftir þessa umræðu sé alveg ljóst að óvissan liggur öll á síðari leiðinni. Það er ekki vitað hversu mikil stöðugleikaframlögin verða, við vitum ekki stöðugleikaskilyrðin. En mig langar til að spyrja hv. þingmann af því að hann er drjúgur pólitískur sálfræðingur: Hvað telur hann að valdi því að þeir sem vildu áður ganga lengst eins og Framsóknarflokkurinn, eins og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skuli nú vera í fararbroddi þeirra sem gefa afslátt, 400 milljarða afslátt, fimm sinnum meira en afslátturinn af höfuðstól húsnæðisskuldanna. Hvað veldur þessu að dómi hv. þingmanns sem þekkir nú innan búðar til hjá Framsóknarflokknum, í sálarkirnum þeirra, betur en flestir sem ég veit um?