144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér á sér stað ágæt umræða en hún ber þess þó engu að síður merki að við höfum haft lítinn tíma til umráða til að fjalla um þetta mál. Ýmsir eru óöruggir á ákveðnum þáttum málsins og þá ekki síst hvað varðar þann hluta sem snýr að stöðugleikaskilyrðunum og er það skiljanlegt. Þar eru atriði sem við vitum ekkert um, vitum ekki hvernig munu þróast, sem við höfum ekki upplýsingar um og því eðlilegt að hafa áhyggjur og kalla eftir því að menn gefi eins miklar upplýsingar og unnt er, eigi að óska eftir því að við samþykkjum málið.

Það er líka vegna þess að þegar þetta mál allt saman var kynnt í Hörpu var stórum tölum slegið upp með hálfgerðum stríðsfyrirsögnum, 1.200 milljarða umfang aðgerðanna, 850 milljarða stöðugleikaskattur lagður á slitabú, stendur á annarri glæru. Þar var fjallað um þetta eins og það lægi allt saman gríðarlega skýrt fyrir, út úr því kæmu 850 milljarðar, verið væri að fara þessa skattlagningarleið og þetta væri skýrt og klárt, eins og forsætisráðherra hafði boðað í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins.

En svo þegar málið kemur hingað inn er það auðvitað ekki þannig og við sjáum það núna. Í vinnu nefndarinnar hefur verið leitt í ljós að upphæðirnar verða tæplega helmingur af því sem slegið var upp í Hörpu ef farin verður skilyrðaleiðin eða ef það sem ætti kannski frekar að kalla samningar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafa verða að veruleika. Ef samningar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafana verða að veruleika verða upphæðirnar allt aðrar. Það angrar mig í þessu máli, að menn skuli vera að nota mikla þjóðarhagsmuni til að slá sér upp á vafasaman hátt, skapa væntingar sem hafa valdið því að fjölmiðlar eru farnir að gera kannanir á því hvernig menn vilja nýta þetta fé, hvort menn vilja byggja sjúkrahús eða eitthvað annað slíkt. Svona kynningar, óábyrg nálgun á málið eins og við sáum í Hörpu, kalla á þannig viðbrögð. Það verður gott þegar þessu máli lýkur og menn geta ekki lengur nýtt sér það eins og þeir hafa gert, í mjög vafasömum pólitískum tilgangi, líkt og forsætisráðherra hefur gert í töluvert langan tíma. Þegar stórir þjóðhagslegir hagsmunir eru undir eiga menn að stíga fram af auðmýkt og segja rétt frá en ekki slá sér upp á milljörðum sem eru ekki til og þeir munu aldrei fá.

Ég heyrði í umræðum áðan um óvissuna. Hún er eðlileg, eins og ég kom inn á í upphafi ræðu minnar, og ég skil þá sem hafa af því áhyggjur. Það breytir því samt ekki, og nú ætla ég aðeins að koma málinu til varnar hvað það varðar að við settum inn í löggjöfina 2013 ákvæði um að fjármála- og efnahagsráðherra þyrfti að samþykkja allar stórar undanþágur frá höftum og að hafa þyrfti samráð við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það eru ákveðnir öryggisventlar hvað varðar stóru fjármagnshreyfingarnar og undanþágur og ef ég skil málið rétt er verið að styrkja þau ákvæði núna gagnvart því sem hér á sér stað í því sem verið er að gera í þeim frumvörpum. Auðvitað verðum við að vona að það dugi og það tryggir að minnsta kosti að það verði samráð og upplýsingagjöf til þingsins, það var markmiðið þegar við gerðum þessa lagabreytingu á sínum tíma.

Ein ástæða þess að við höfum þó getað farið í gegnum þetta á jafn stuttum tíma og raun ber vitni, eða á um tíu dögum, er að við erum mörg hér inni og stjórnarandstaðan kemur ekkert köld að málinu. Við vorum í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og þurftum að vinna með höftin og með þrotabúin og snjóhengjur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það áðan hvernig það var gert og hvernig nálgunin var. En frá því að höftin voru sett hér á haustdögum 2008 hefur fjölmargt gerst og það hefur verið farið ágætlega yfir aflandsáætlunina sem tók gildi 2011 og hefur verið í gildi síðan. Síðan höfum við líka farið yfir það hvernig hún stækkaði og víkkaði út þegar tekin voru inn fyrir höftin í mars 2012 á Alþingi allar erlendar eignir þrotabúanna. Það skipti gríðarlega miklu máli og það er algjör vendipunktur í málinu, vegna þess að frá þeim tíma höfum við haft stöðu til að hafa stjórn á því sem gerist varðandi uppgjör þrotabúanna til að tryggja íslenska hagsmuni og til að tryggja stöðugleika í efnahagslífi okkar og þannig að uppgjörið á þrotabúunum valdi ekki kollsteypum.

Það er þess vegna að ákveðnu leyti jákvætt ef okkur er að takast að koma okkur saman um þetta mál núna, vegna þess að við vorum svo sannarlega ekki sammála þá. Þá vorum við með stjórnarandstöðu sem gat ekki undir nokkrum kringumstæðum staðið með þáverandi ríkisstjórn í einu einasta máli, ekki einu sinni svona stórum þjóðarmálefnum sem varða þjóðarhagsmuni, og Sjálfstæðisflokkur greiddi beinlínis atkvæði gegn þeirri tillögu að taka erlendu eignir þrotabúanna undir höft, sem er forsenda þess sem verið er að gera hér í dag og allar þessar aðgerðir byggja á. Það er sem betur fer þannig að við höfum ákveðið að vera ekki svo forhert í andstöðu okkar við núverandi stjórn að vera ekki tilbúin til að taka efnislega og málefnalega á móti mikilvægum málum líkt og þessum. Það höfum við gert og þar hefur forsagan aldeilis hjálpað til í því að menn hafa getað farið jafn hratt með þetta í gegnum þingið og raun ber vitni.

Þegar stærðin á umfangi þrotabúanna lá fyrir á haustdögum 2012 var strax í framhaldinu ráðist í sviðsmyndagerð, þ.e. að vinna með það hvernig hægt væri að gera þetta þannig að efnahagslífið færi ekki á hliðina og við gætum farið að losa um höftin. Hluti af þeirri vinnu var að í mars 2013, eða ári eftir að þessi mikilvæga löggjöf var sett, þegar þrotabúin voru tekin inn undir höft, var tekin mjög mikilvæg ákvörðun á Alþingi sem jafnframt sýndi kröfuhöfunum að okkur var full alvara með því að ganga eins langt og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar leyfðu okkur. Það var þegar við tókum þá ákvörðun í þessum sal í mars 2013 að gera höftin ótímabundin, við tókum út sólarlagsákvæði haftanna þannig að þau voru ótímabundin og með því voru fyrstu skrefin raunverulega tekin í átt til þess sem verið er að gera hér í dag, við sýndum kröfuhöfunum að við meintum það þegar við sögðum að við ætluðum að ganga eins langt og þjóðréttarlegar skuldbindingar heimiluðu okkur í því að verja íslenska hagsmuni.

Það gerðist meira í kringum mars 2013. Ég sat í stóli fjármála- og efnahagsráðherra þegar við vorum að vinna með sviðsmyndirnar og gera þessar breytingar, taka út sólarlagsákvæði haftanna og gera breytingar hvað varðaði aðkomu þingsins að þessu máli þannig að samráð yrði um stórar ákvarðanir við efnahags- og viðskiptanefnd. Í tengslum við allt þetta og áður en það gerðist átti ég fundi með formanni Sjálfstæðisflokksins, formanni Framsóknarflokksins og þeim sem þá fór fyrir Hreyfingunni, Þór Saari. Á þeim fundum fórum við ágætlega yfir það hvað fyrir okkur vakti og menn þekktu þetta ágætlega. Þess vegna gekk þetta ágætlega í gegnum þingið, þær breytingar sem við gerðum, vegna þess að þeir vissu að þetta væri undirbúningurinn að því að við færum að þjarma að kröfuhöfunum, til að við gætum farið að verja íslenska hagsmuni og til að við gætum farið að létta höftunum af íslenskum heimilum og íslensku viðskiptalífi.

Í framhaldi af því réðum við sérstakan ráðgjafa til að vinna þessar sviðsmyndir með okkur. Sá ráðgjafi var, og það kom fram í fjölmiðlum á sínum tíma, Steinar Þór Guðgeirsson hæstaréttarlögmaður. Hann vann málin mjög vel með okkur, vann sviðsmyndirnar og gerði það vel. Það er dálítið gaman að skoða sviðsmyndirnar núna og það sem þær fólu í sér en þær eru nánast það sama og verið er að gera hér, það eru aðrir núansar en í grófum dráttum er þetta það sama. Það er þess vegna sem við eigum auðveldara með að skilja hvað er á ferðinni og erum fljótari að setja okkur inn í þetta og málin hafa getað gengið jafn hratt hér og raun ber vitni. Þess vegna hefur það, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan, komið mér verulega á óvart að menn séu einhvern veginn að reyna að klifra upp á bakið á öðru fólki og gera sig stóra í pólitík á þessu máli. Menn geta gert það á svo mörgum öðrum. Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir þjóðina og það skiptir máli að um það sé samstaða, það skiptir máli að menn fari með réttar tölur, gefi ekki væntingar umfram það sem gerlegt er. Þessi ríkisstjórn hefur fallið á öllum þeim prófum vegna þess að menn hafa séð þarna eitthvert tækifæri til að slá pólitískar keilur. En menn slá ekki pólitískar keilur á svona málum. Það er beinlínis rangt að gera það. Það eru ekki stórir menn sem það gera þegar svona mikið er undir. Ég vona að við eigum ekki eftir að sjá meira af slíkri framgöngu í framtíðinni og að menn læri af þessu.

Virðulegi forseti. Að því sögðu ætla ég að nefna í lokin að eins og fram hefur komið er óvissan í þessu mikil. 850 milljarðarnir sem stöðugleikaskatturinn gæti skapað eða sótt verða auðvitað miklu færri ef skilyrðaleiðin eða samningaleiðin verður farin og ef samningar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafana verða að veruleika erum við að tala um miklu lægri upphæð. Það er eins og hv. þm Össur Skarphéðinsson hefur farið svo vandlega yfir í dag. Þess vegna er mér algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn eru í kynningum á málinu að slá upp þessari tölu, 850 milljörðum. Það væri miklu betra að koma heiðarlega fram hvað það varðar og gera okkur öllum strax grein fyrir því að upphæðirnar verði lægri í raun og veru og líka að gera fólki grein fyrir því að þetta eru ekki fjármunir sem eru til reiðu til að fara í umferð í hin og þessi verkefni. Það er ekki þannig og best að segja frá því strax svo að væntingarnar verði ekki of miklar.

Það mun annað gerast þegar þetta fer allt saman af stað og það er að mjög mikið af fjármunum og eignum mun skipta um hendur. Það skiptir máli fyrir okkur hér og okkur sem Íslendingum stendur ekki alveg á sama um það og eðlilegt að ákveðnar umræður skapist í kringum það. Þess vegna er svo mikilvægt að menn reyni að ganga þannig fram að hafa þetta eins gagnsætt og opið og mögulegt er. Við munum fylgjast vel með því ferli héðan af Alþingi og veita að mjög ákveðið og öflugt aðhald þegar það fer allt saman af stað, þegar eignarhald á bönkum fer að breytast o.s.frv.

Að lokum vil ég nefna að þetta er ekkert hafið, málið er ekki búið þegar við samþykkjum þessa löggjöf eða breytingar héðan. Þá eru fyrstu verkefnin að hefjast og það er ekki búið að afnema höft með því. Manni hefur heyrst á talsmönnum stjórnarflokkanna að afnám hafta sé ekki inni í myndinni heldur megi frekar kalla þetta losun fjármagnshafta vegna þess að einhvers konar höft munum við þurfa að búa við meðan við búum við íslensku krónuna í þeirri mynd sem hún er. Það sem ég sakna mest og vil kalla eftir er að formaður nefndarinnar greini frá því í lok umræðunnar hvort menn hafi glímt við eftirfarandi spurningu í nefndarvinnunni: Og hvað svo? Menn ætla að létta höftum en hvernig ætla þeir að reka peningakerfið í framhaldinu? Hvað á að gerast? Ætla menn síðan bara að fara aftur á sjálfstýringu inn í sama umhverfi þar sem við erum með tiltölulega hærri vexti en gerist og gengur og við förum sjá innstreymi fjármagns í háa vexti og hvað svo? Hvernig ætla menn að reka þetta í framhaldinu? Mér finnst við ekki geta farið á fullu í losun fjármagnshafta öðruvísi en að svör við þeim spurningum liggi fyrir og þau liggja ekkert fyrir. Það eina sem liggur fyrir af hálfu þessarar ríkisstjórnar er að þeir eru tilbúnir og ætla sér að loka á eina leið sem þó hefur verið rædd. Ég get alveg skilið það, það þurfa ekki allir að vera sammála mér og okkur í Samfylkingunni um að mögulega væri besta leiðin fyrir okkur að taka upp evru í þessu ferli. Það þurfa ekki allir að vera sammála okkur í því. En maður biður að minnsta kosti um það þegar menn loka þeirri leið að þeir leggi á borðið hvað þeir ætli að gera í staðinn. Það liggur ekki fyrir. Það eina sem við vitum núna er að menn ætla að losa fjármagnshöft og keyra svo á sjálfstýringu inn í sama umhverfi og við komum okkur í þennan vanda í upphafi. Annað liggur ekki á borðum og það er óábyrgt. Við munum kalla mjög stíft eftir því af hálfu þessarar ríkisstjórnar að hún viti hvert hún ætlar að fara með okkur inn í lengri framtíð, að menn hafi einhverja hugmynd um það þannig að hún keyri okkur ekki um koll eins og allt stefnir í ef ekkert verður að gert.