144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:10]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þau mál sem hér eru til umræðu eru angi af þeim atburðum sem gerðust fyrir um það bil sjö til átta árum, vorið 2007 og 2008. Þá varð mikil bóla í bankakerfi sem leiddi til þess að íslenskir bankar riðuðu til falls og féllu í byrjun október 2008 og voru eignir þessara banka í útlánum um það bil 10 þús. milljarðar, um áttföld landsframleiðsla. Þessar eignir skiptust í 5.500 milljarða í innlendum eignum og 4.500 milljarða í erlendum eignum.

Á sínum tíma áttu eignir og skuldir að standast á en þegar upp var staðið kom í ljós að tiltölulega lítið var til á móti erlendum skuldum bankanna, sem voru upp á 6.600 milljarða í ársbyrjun 2008, ef mig minnir rétt, a.m.k. var ekki til fyllilega fyrir þessum erlendu skuldum. Sá vandi sem við erum að takast á við í dag er verulegt ójafnvægi milli erlendra skulda, erlendra eigna og innlendra eigna sem hafa þann eiginleika að ekki er hægt að breyta þeim í erlendan gjaldmiðil án þess að þrýstingur verði á gengi krónunnar, eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri og síðan fall íslensku krónunnar sem mun leiða af sér verðbólgu innan ekki langs tíma og hvers kyns ójafnvægi sem leiðir til nýs spírals.

Í þessu máli er verið að reyna að takast á við þennan vanda. Kröfuhafar og þeir sem hafa samið fyrir okkar hönd hafa gert sér grein fyrir því að þessar innlendu eignir eru ekki peninganna virði, þeim verður ekki breytt í erlendan gjaldeyri. Það er verið að takast á við þennan vanda. Þetta er í rauninni einstakt vandamál. Ég hef ekki fundið vanda af þessu tagi. Það sem meira er, ég hef verið að leika þá list hvernig eigi að eyða þessu í bókhaldi. Það er einn liður sem jafnast út.

Hér erum við sem sagt að reyna að reyna að eyða verðmætum sem eru ekki ígildi peninga. Það er aldrei hægt að tala um þetta sem peninga. Það eru tvær leiðir færar sem hér eru nefndar og sú þriðja stendur reyndar galopin. Þessar tvær eru skattlagning, 39% eignarskattur. Við getum ekki borið 39% eignarskatt saman við 39% tekjuskatt eða 40%, eftir atvikum. Hins vegar er stöðugleikaframlag sem byggist á samkomulagi þar sem málið er úr sögunni ef samkomulagi er náð. Þriðja leiðin sem er opin núna eru gjaldþrot þessara stofnana, þ.e. gjaldþrotameðferð á grundvelli gjaldþrotalaga. Sú leið hefði í rauninni verið framhaldsleikur og hefði leitt til uppboðs á einhverjum gjaldeyri kröfuhafanna, sem eiga þessa lögvörðu kröfu í landi sem býr við þau skilyrði að vera að stofni til með frjálst flæði fjármagns en þó í gjaldeyrishöftum. Gjaldþrotaleiðin hefði leitt til margra ára harðneskju á gjaldeyrismarkaði með gjaldeyrishöftum sem er verið að reyna að afnema. Þær leiðir sem hér er verið að fara leiða ósköp einfaldlega til þess að það verður hægt að ná samningum án eftirmála og þær eignir sem þrotabúin eiga og er ekki hægt að breyta lenda í því að verða hlutlausar innan íslenskrar lögsögu í vörslu Seðlabankans.

Það hefur verið hamrað á því í efnahags- og viðskiptanefnd að upp kunni að koma freistnivandi, menn vilja nota þessa „peninga“, sem þetta er ekki heldur fjármunir, til einhverra gæluverkefna. Ég ætla ekki að kalla heilbrigðismál gæluverkefni, ég ætla ekki að kalla uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss gæluverkefni. Málið er ósköp einfaldlega það að hvers kyns útgjöld af þessum framlögum hafa nákvæmlega sömu áhrif í höndum ríkissjóðs og þau hafa í höndum kröfuhafanna. Það er sú skelfing sem er verið að reyna að komast hjá. Ef aðilar, sem þessar ráðstafanir eiga að ná til, ganga að þessum samningum þá er mikill vandi úr sögunni, sem er einstakur eins og ég sagði áðan. Ég hef ekki fundið vanda af því tagi að einkageirinn standi með mikil bókhaldsleg verðmæti sem ekki er hægt að breyta í erlendan gjaldmiðil. Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, „convertible currency“, það er sá vandi sem við stöndum andspænis. Þessi verðmæti verða hlutlaus í hagkerfi sem hefur nú ýmsa möguleika til að blómstra ef vel er að verki staðið, þ.e. blómstra af þeirri framleiðslu sem af verkum manna leiðir af því sem náttúran gefur af sér. Þá eigum við að geta búið við þokkaleg skilyrði og þá rýmkast vissulega svigrúm í efnahagslífi þannig að þau verkefni sem við teljum nauðsynleg verða einfaldari á komandi árum.

Allir bera hlýhug til nýs þjóðarsjúkrahúss, háskólasjúkrahúss. Þær fjárhæðir sem þar eru eru í rauninni ekki stóra leiðin, leyfi ég mér að segja, í samanburðinum. Ég efast um að 80–90 milljarða þjóðarsjúkrahús sé mikið stærra að umfangi en Landspítalinn árið 1930.

Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir hönd okkar landsmanna ef þetta gengur eftir, þ.e. stöðugleikaskattur ellegar stöðugleikaframlag eftir atvikum. Jafnvel þó að allt lendi í lægstu stöðu þá er vandinn leystur. Það hrósar enginn sigri í stríði. Það kemur niðurstaða sem menn sætta sig við í því stríði sem hér er háð, þeirri orrustu sem hér er háð um upplausn á slitabúum bankanna. Vonandi kemur niðurstaða með sátt. Allir eru með rammt bragð í munni en þetta er staðan. Ég vona að menn hreyki sér ekki af miklum sigri eða af því að það hefði verið hægt að ná betri árangri. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur, ef menn glíma við elli kerlingu er alltaf hægt að gera betur. Þetta er einfaldlega niðurstaða samninga og ég tel miðað við aðstæður að við megum vera tiltölulega sátt af þeim samningum sem kunna að nást á grundvelli þeirrar löggjafar sem hér verður vonandi til lykta leidd ekki seinna en á morgun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni. Ég þakka áheyrnina.