144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Píratar styðja þetta mál þó að það verði að koma hér fram að út af samningum um stöðugleikaframlag hafa hendur þingsins verið nokkuð bundnar. Forsætisráðherra gerði samkomulag við kröfuhafa áður en þetta kom fyrir þingið.

Ég vil jafnframt taka það sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði hér áðan varðandi styrkingu á lagarammanum og yfirlýsingar frá formönnum flokkanna um að verða ekki við freistnivanda er lýtur að þessum fjármunum, ef þeir verða einhverjir, en þeir verða þá undir umsjón þingsins þó svo að þeir liggi bundnir á bankareikningi Seðlabankans.

Það er líka mjög mikilvægt að halda því til haga að þetta er ekki fjáröflunarleið heldur stöðugleikaleið fyrir landið.