144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um frumvarp til laga um stöðugleikaskatt. Þetta er annað þeirra frumvarpa sem eru hluti af heildstæðri áætlun um að geta loks hafið losun fjármagnshafta. Við greiðum atkvæði um hitt á eftir.

Hér skipta mestu máli þau málefnalegu markmið sem eru höfð til grundvallar stöðugleika í hagkerfinu með almannaheill að leiðarljósi og að verja þannig efnahagslega velferð. Lagt er til að lögfesta einskiptisskatt sem ætlað er að ná þessu markmiði. Þá er afar mikilvægt að þeim fjármunum sem renna í ríkissjóð verði ekki ráðstafað öðruvísi en í samræmi við þessi markmið. Til að tryggja þetta enn frekar er í frumvarpinu gert ráð fyrir samráði við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum og í frumvarpi til fjárlaga skal kynna áætlaða meðferð og ráðstöfun fjármuna. Þá er frá því gengið í breytingartillögum með frumvarpinu að efnahags- og viðskiptanefnd verði kynnt þau áform á upphafsstigi fjárlagagerðar. (Forseti hringir.)

Um markmið og ráðstöfun (Forseti hringir.) og þennan lagalega umbúnað ríkti mikil samstaða.