144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð stöðugleikaskattinn, en tel hann að vísu vera of lágan og tek undir gagnrýni InDefence-hópsins og ýmissa málsmetandi hagfræðinga á borð við Lilju Mósesdóttur. Ég lít svo á að stöðugleikaskatturinn eigi að stuðla að stöðugleika en eigi jafnframt að vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð til að vega upp á móti því gríðarlega tjóni fyrir íslenskt samfélag sem fjármálabraskarar hafa valdið. Það er fullkomlega eðlilegt að þetta eigi að vera tekjuöflun líka.

Ég mun styðja þetta frumvarp. Öðru máli gegnir um hjáleiðina, hana styð ég ekki og greiði atkvæði gegn henni. Þar er margt ógagnsætt, sumt á að fara leynt og er ekki uppi á borði. Ég sakna þess að ýmsir þeirra sem gagnrýndu réttilega leyndina og ógagnsæið í Icesave-samningnum á sínum tíma skuli ætla að bjóða Alþingi upp á þessi vinnubrögð. Það á að þjösna hér í gegn á tíu dögum ógagnsæju frumvarpi sem þingið skilur mjög takmarkað. Auk þess á að fela (Forseti hringir.) Seðlabanka Íslands ígildi skattlagningarvalds. Honum er gert að upplýsa (Forseti hringir.) viðskiptanefnd þingsins, en skattlagningarvaldinu er (Forseti hringir.) úthýst. Þetta ætlar þingið að láta bjóða sér upp á. (Forseti hringir.) Ég segi nei við þessu.