144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ákaflega ánægjulegt að sjá hversu vel þingmenn allra flokka taka þessu máli og sumir jafnvel málefnalega, aðrir ekki jafn málefnalega, það eru auðvitað ekki svaraverðar fullyrðingar sem hér hafa fallið um að ríkisstjórnin sé búin að semja við einhverja um eitthvað í þessu sambandi. Það liggur einfaldlega fyrir að hér er verið að samþykkja skattlagningu og menn þurfa, ef þeir vilja komast hjá þeirri skattlagningu, að uppfylla stöðugleikaskilyrði sem eru miklu strangari en nokkur skilyrði sem áður hafa verið uppi fyrir því að fá nauðasamninga. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson virðist einfaldlega hafa sofnað á kynningarfundinum ef það fór algjörlega fram hjá honum, sú kynning sem þar fór fram á stöðugleikaskilyrðum.

Virðulegur forseti. Aðalatriðið er þó það að hér er þingið að samþykkja leið til þess að leysa stærsta efnahagslega vandamál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár og það er mikið fagnaðarefni. Það er ekki bara fagnaðarefni hér á Íslandi heldur hefur þetta vakið athygli víða um lönd, enda með mjög afdráttarlausum hætti verið að leysa mál (Forseti hringir.) sem virtist mörgum óleysanlegt fyrir síðustu kosningar.