144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessari breytingu treystum við frekar umbúnaðinn um það með hvaða hætti farið verður með þetta fé. Og við bætum inn því skilyrði, sem er mjög mikilvægt, að ef fjármálaráðherra hyggst gera tillögu um að nýta þessa fjármuni í fjárlagafrumvarpi þá verði hann áður að bera það undir efnahags- og viðskiptanefnd. Með öðrum orðum, það verður ekki hægt að nota þessa fjármuni við meðferð fjárlaga hér í þinginu, fjárlaganefnd getur ekki til að loka gati seilst í þá. Það þarf að gera tillögu um það í fjárlagafrumvarpi af hálfu fjármálaráðherra áður en fjárlagafrumvarp er lagt fram. Hann getur ekki eftir það farið til efnahags- og viðskiptanefndar, hann þarf áður að fara til hennar á undirbúningsstigi fjárlaga og hann þarf að hafa þá í hendinni umsögn frá Seðlabanka Íslands um hver áhrif þetta hafi.

Með þessu erum við að tryggja nokkurra mánaða ferli sem alltaf þurfi að eiga sér stað áður en hægt sé (Forseti hringir.) að gera tillögu um að þessir fjármunir séu nýttir. Það er mjög mikilvægt að þetta komi hér fram, þetta er grundvallarforsenda fyrir því að hægt verði að styðja málið í þeirri mynd sem það er.