144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

787. mál
[10:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Því miður er það svo að óvissan er miklu meiri þegar kemur að mati á þessum þætti og það er miður að svonefnd stöðugleikaskilyrði skuli ekki vera opinber eða meiri upplýsingar liggi fyrir um þau og meira gagnsæi mætti vera varðandi málið. Það er allt sem bendir til að fjárhagsleg útkoma ríkissjóðs verði til muna lakari fari stóru búin, eins og allt stefnir í, þessa leið og gæti sá munur verið af stærðargráðunni 250 til upp undir 400 milljarðar kr. og munar um minna.

Það er samt vandasamt að bera þessar leiðir saman og í reynd eru frumvörpin hluti af einni heild sem spilar saman með ýmsum hætti, valkvæð leið og það styrkir aðgerðina sem slíka. Það virðist liggja fyrir einhvers konar óformlegt samkomulag við lykilkröfuhafa, alla vega líta þeir svo á samanber umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og langlíklegast að lausnin verði á þessum forsendum. Þá verðum við auðvitað að vona að stöðugleikaskilyrðin standi undir nafni, þau reynist fullnægjandi til að tryggja stöðugleika (Forseti hringir.) í kringum aðgerðina, og hitt mætir þá afgangi þó að útkoma ríkissjóðs úr þessu verði mun lakari vegna þeirra afslátta sem kröfuhafarnir augljóslega fá út á það að fara þessa leið.