144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins ræða það mál sem er til umræðu varðandi frumvarp til laga, sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur fram, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Frumvarpið gengur út á nokkra þætti eins og tilfærslu á viðmiðum í aflareynslu og framlengingu nokkurra bráðabirgðaákvæða og ráðstöfun makríls sem hér hefur verið til umræðu. Við í minni hlutanum erum ekki flutningsmenn á þessu máli. Við töldum að meiri hlutinn ætti að bera ábyrgð á því. Í raun hefði hæstv. ráðherra átt að koma með þetta mál en við vitum að það hefur svo sem gengið á ýmsu varðandi umræðu um makrílfrumvarpið sem lá fyrir þinginu og var mjög umdeilt og náðist að fresta fram á haustið til að taka það með þeirri vinnu sem fram undan er við að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Við í minni hlutanum vorum líka ósátt við að mál eins og veiðigjöldin væri sett í salt mjög lengi og öll orkan hefði farið í að ræða þetta umdeilda makrílfrumvarp.

Í 3. gr. er ákvæði sem lýtur að því að framlengja enn eina ferðina svokallað Stakkavíkurákvæði. Þau rök voru færð fyrir því að það sé verið að vinna að skulda- og lánamálum þess fyrirtækis, en við á Alþingi erum búin að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði ansi oft. Þarna er það framlengt og talað um lokafrest til 1. september 2016. Í mínum huga er það algerlega skýrt að það er ekki hægt að framlengja ákvæðið eina ferðina enn. Þetta verður að þýða það sem stendur hér, að þetta sé lokafrestur. Þetta snýr að því að viðkomandi útgerð er komin upp fyrir svokallað kvótaþak, þ.e. hlutdeild í króka- og aflamarkskerfinu.

Í 4. gr. er málið sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur rætt hér. Ég tel að það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af því sem þar kemur fram. Þar er verið að leggja til að 2 þúsund lestir af makríl séu aðgengilegar smábátunum í krókaaflamarkskerfinu. (Gripið fram í.) Við vitum að umræðan var þannig þegar talað var um að hlutdeildarsetja þetta stóra makrílfrumvarp með tilheyrandi afleiðingum að setja það inn í núverandi kvótakerfi með framsali og öllu tilheyrandi og færa þeim aðilum sem höfðu aflareynslu og viðmiðin tugi milljarða í hendur. Rökin í þeirri umræðu voru mikið á þá leið að það væri ekki hægt að ráðstafa til smábáta þessum 5,3%, þ.e. í hinn svokallaða litla pott, það væri ekki hægt að ráðstafa makríl í þann hluta fiskveiðistjórnarkerfisins nema makríll yrði fyrst kvótasettur og þá fengi sá pottur 5,3% til ráðstöfunar. Okkur var stillt upp við vegg eins og þetta tvennt þyrfti að fara saman. Mér finnst að þarna komi skýrt fram að það sé hægt að ákveða að ráðstafa einhverju X magni af makríl til þátta eins og í þessu tilfelli litla pottsins, þ.e. þessarar hlutdeildar af heildaraflamagni, 5,3%, með því að lögfesta og styrkja það lagalega í frumvarpi. Eins og það liggur nú fyrir er verið með lögum að leggja það til að þessar 2 þúsund lestir af makríl fari til þessara ráðstafana í þann hluta sem krókaaflamarksbátar og aðrir bátar geta nýtt sér með því að leigja úr þeim potti.

Mér finnst þetta undirstrika að hægt sé að ráðstafa öðrum tegundum sem koma inn í okkar lögsögu með öðrum hætti en í aflahlutdeild eða með því að kvótasetja þær. Menn viðurkenna að það er hægt að breyta þessu kvótakerfi. Það er auðvitað löggjafinn sem hefur um það að segja fyrst og síðast hvernig hann vill ráðstafa fisktegundum til framtíðar, en þá þurfa að vera lagastoðir fyrir því. Þarna er lítið dæmi um að það sé hægt. Þess vegna er ég mjög ánægð með það. Það liggur þá fyrir, burt séð frá því hvaða magn þetta er til eða frá, það má deila um það. Þarna eru 2 þúsund lestir og ég held að það sé gott. Það er auðvitað mjög slæmt eins og hæstv. ráðherra ákvað í sumar með reglugerð að hlutdeildarsetja smábáta og loka kerfinu. Það er gagnrýnisvert. Ég tel að það verði að leita allra leiða til að komast út úr því því að það er óásættanlegt. Þetta vildi ég segja í þessum málum.

Það er líka verið að lækka þarna leigu á síld og makríl til þeirra sem hafa aðgengi að þessum potti úr 16 kr. í 8 kr. Það hefði átt að rökstyðja það betur. Ég tel að þarna sé svolítið verið að setja puttann á þetta. Síðast þegar við vorum að ræða þetta, í fyrra, þá minnir mig að það hafi verið eitthvað um 20 kr. sem lagt var upp með. Við í atvinnuveganefnd miðuðum við að menn fengju ekki mjög hátt verð fyrir aflann upp úr sjó og því væri eðlilegt að lækka þetta í 16 kr. Núna er puttinn settur á þetta og það lækkað í 8 kr. Ég held að það verði að vera rökstutt miklu betur þannig að það sé þá eitthvert ákveðið hlutfall af aflaverðmæti upp úr sjó sem sé á ferðinni. Ég er ekki að segja að þessi tala, 8 kr., sé endilega vitlaus en hún er dálítið eins og menn hafi sett puttann upp í loftið og skotið á einhverja slembitölu.

Þó að ég sé ekki á þessu frumvarpi frekar en aðrir í minni hluta atvinnuveganefndar, þá tel ég að þetta sé ekki þannig mál að menn þurfi að hafa neinar áhyggjur af því til framtíðar að við getum ekki gert það sem löggjafinn ákveður varðandi ráðstöfun á nýrri tegund í lögsögu okkar, eins og makrílnum, eða gert yfir höfuð breytingar á núverandi kvótakerfi. Ég á ekki von á öðru en ég geti jafnvel stutt þetta mál.