144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[11:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gef mjög lítið fyrir orð þingmannsins í þessum efnum. Við erum öll sammála því og að því er unnið á vegum stjórnarskrárnefndar að koma með ákvæði í stjórnarskrá þar sem ákveðnum hluta þjóðarinnar og ákveðnum hluta þingmanna verði gert kleift að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu í vönduðu ferli sem verði búið til í kringum það. Við erum bara ekki komin þangað enn þá. Þess vegna er þetta algjörlega ótímabært. Heildaraflaheimildir, þ.e. veiði við Ísland, eru plús/mínus 1,5 milljónir tonna, getur farið niður í 1.200 þúsund tonn og upp í allt að 1.700–1.800 þúsund tonn. Við erum að tala um 2 þúsund tonn af makríl, sem allt þetta veður er út af, fyrir smábátana. Það er verið að hjálpa því kerfi að mæta óskum þeirra um auknar aflaheimildir.

Ég fullyrði að það er alger misskilningur hjá þingmanninum að þjóðin vilji kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það eigi að veita 2 þúsund aukatonn af heildarafla sem er plús/mínus 1,5 milljónir tonna. Ef það er markmiðið með þjóðaratkvæðagreiðslu þá er engin samkvæmni í málflutningi pírata hér um að það sé verið að taka mál svo hratt í gegnum þingið að þjóðin hafi ekki þetta tækifæri. Píratar gera enga athugasemd og nefna það ekki í umræðunni hér þegar verið er að veita um 1.400 milljónir í viðbót í framkvæmdir á orkufrekum framkvæmdum við Bakka. Það má rúlla hér í gegn með 10:2 atkvæðum án þess að þeir segi að það þurfi að vísa því til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef við ætluðum að fara að vinna eftir þessu þá væri það óvinnandi vegur að starfa hér.

Þetta er að mínu mati mikið vinsældarfrumhlaup hjá hv. þingmanni.