144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[11:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að við í minni hluta atvinnuveganefndar séum ekki flutningsmenn þessarar tillögu þá styðjum við hana, vegna þess að hér er verið að gera lítils háttar breytingar að fenginni reynslu til að auðvelda framkvæmd á þessum atriðum, eins og t.d. varðandi uppboð á fisktegundum fyrir 5,3% flokkinn. Það er verið að auðvelda mönnum að selja skip innan lands án þess að kvóti þurfi að fylgja með, og það er verið að framlengja hér svokallað Stakkavíkurákvæði enn einu sinni um eitt ár, sem er vegna þess að það fyrirtæki er fyrir ofan kvótaþak.

Síðan í lokin er verið að setja hér inn 2 þús. lestir af makríl til smábáta en jafnframt er verið að lækka það gjald sem ríkissjóður selur þessar aflaheimildir á, í raun og veru á uppboði, úr 16 kr. í 8 kr. Ég er líka hlynntur því vegna þess að þetta er fyrir smábátaútgerð sem er kannski ekkert voðalega hagkvæm hvað varðar síldveiðar. Ef ég reikna rétt í núllum í iPad-inum þá sýnist mér þetta vera um 6,4 millj. kr. sem gætu verið að detta þar út.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma fram sem atkvæðaskýringu og við þingmenn jafnaðarmanna styðjum þetta frumvarp.