144. löggjafarþing — 147. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[13:34]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggur breytingartillaga hv. efnahags- og viðskiptanefndar er lýtur að rétti kröfuhafa til þess að koma að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests. Ég reifaði þetta í stuttu máli í framsögu minni fyrir nefndaráliti hér í gær. Ástæðan fyrir þessari breytingartillögu er að nefndin telur mikilvægt að það liggi fyrir sem fyrst vissa um það hvort kröfur muni berast við slitin og áður en atkvæði verða greidd um frumvarp að nauðasamningi. Nefndin lagði því til að á eftir 2. gr. frumvarpsins kæmi ný grein sem yrði í ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki, ákveðið bráðabirgðaákvæði, og hljóðaði eins og segir á þskj. 1612.

Til frekari skýringar á þessari breytingartillögu vil ég geta þess að með henni er ekki verið að hrófla við þeim heimildum sem slitastjórnir hafa samkvæmt gildandi rétti til að greiða kröfuhöfum, almennum jafnt sem forgangskröfuhöfum, samkvæmt nauðasamningi sem kröfuhafafundur hefur samþykkt lögum samkvæmt. Það geta slitastjórnir gert með því að nauðasamningur taki tillit til krafna sem lýst hefur verið á grundvelli 1. eða 5. töluliðar 118. greinar gjaldþrotaskiptalaga. Það er vitaskuld mat slitastjórnar og kröfuhafafundar að hve miklu leyti nauðasamningur tekur tillit til seint fram kominna krafna sem lýst er með þessum hætti. Við mat sitt getur slitastjórn auðvitað farið ýmsar leiðir, t.d. litið til dómafordæma Hæstaréttar, en það er alfarið utan við efni þeirra laga sem hér um ræðir. Ég vildi bara geta þess til frekari skýringar á þessari breytingartillögu að það er ekki verið hrófla við þeim heimildum sem slitastjórnir hafa til að greiða til almennra kröfuhafa.

Virðulegur forseti. Úr því að ég er nú hingað komin þá er annað atriði sem ég vildi nefna líka svo að öllu sé haldið til haga. Það er örlítil, meinleg villa í nefndarálitinu, í kaflanum sem ber yfirskriftina 1. mgr. f-liðar 2. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.“

Það er auðvitað ekki rétt að slitastjórn ljúki þar með störfum vegna þess að slitastjórn hefur lagabundna starfsskyldu þrátt fyrir að nauðasamningur hafi verið staðfestur. Ég vildi geta þess hér svo að því sé haldið til haga að þetta hefur slæðst inn fyrir andvaraleysi nefndarmanna án þess að ég telji þörf á að prenta nefndarálitið aftur.