145. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Forseti Íslands setur þingið.

[11:10]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 8. september 2015.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 10.30.

Gjört á Bessastöðum, 1. september 2015.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

___________________________

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 8. september 2015.“

 

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæðið sem staðfest var við stofnun lýðveldisins og rétturinn til auðlinda hafsins hundruð mílna frá ströndum landsins er vitnisburður um árangur Alþingis, undirstöður framfara og hagsældar, kjölfesta sem fært hefur Íslendingum traustan sess í samfélagi þjóða heims. Vegferðin var þó stundum torsótt en Alþingi bar jafnan gæfu til að sýna seiglu og samstarfsvilja þegar mest á reyndi; áfangasigrar hver af öðrum í traustri höfn. Víðtækt vald sem þingheimur beitir nú til góðs byggir því á baráttu fyrri tíðar, ævistarfi þeirra sem áður gengu til atkvæða á fundum þingsins, rökræddu ályktanir og inntak laga.

Þingsetning er hverju sinni áminning um þessa sögu, arfleifðina sem hið lýðræðislega kjör færir okkur og um leið ábyrgðina gagnvart framtíðinni, áréttar að tíminn sem hvert okkar fær í þessum sal er stuttur kafli í langri sögu Alþingis, skylda okkar að skila fjöreggi þingsins heilu í hendur þeirra sem næstir koma.

Svo ungt er lýðveldið að þegar ég fyrir réttum 50 árum var hér uppi á svölum í fámennum hópi fréttaritara — flokksblöðin og gamla Gufan þá einu flytjendur tíðinda af daglegum störfum í þessum sal — sat enn á þingi hópur forustumanna úr öllum flokkum sem verið höfðu alþingismenn á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar lýðveldisstofnun og forsetakjöri var lýst í rigningunni við Öxará. Sumir höfðu jafnvel gegnt ráðherraábyrgð í heimskreppunni miklu, árum áður en erlend herskip birtust hér við höfnina í upphafi stríðsins.

Baráttan fyrir óskertu fullveldi Íslands hafði þá varað í nær heila öld og allir vissu að fullveldið var hornsteinn í sjálfstæðiskröfum Íslendinga, réttur sem síðar var hertur í átökum við erlend ríki um útfærslu landhelginnar, fullveldið forsenda þess að hin fámenna þjóð bar að lokum hærri hlut en heimsveldið, fullveldisréttur sem var einnig nýlega úrslitavopn þegar bandalag Evrópuríkja reyndi að þvinga Íslendinga til að axla skuldir einkabanka.

Sagan, bæði fyrr og nú, færir okkur fjölmörg dæmi þess að fullveldisréttur smárrar þjóðar getur ráðið úrslitum um örlög hennar. Sá sannleikur var þungamiðja í málflutningi og sannfæringu kynslóðanna sem helguðu sjálfstæðisbaráttunni krafta sína, bjargið sem gerði Alþingi síðar kleift að færa þjóðinni full yfirráð yfir auðlindum hafsins og landgrunninu.

Stjórnskipun Íslands er helguð af þessum fullveldisrétti, ákvæðum sem leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar töldu meðal dýrmætustu ávinninga í réttindabaráttu þjóðarinnar. Um þessar mundir er hins vegar boðað í nafni nefndar sem ræðir stjórnarskrána að hið nýja þing þurfi á næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar, tíminn sé naumur því að nýta þurfi vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori. Efnisrökin eru hvorki tilvísun í þjóðarheill né ríkan vilja landsmanna, heldur almennt tal um alþjóðasamstarf, lagatækni og óskir embættismanna. Íslandi hefur þó allt frá lýðveldisstofnun tekist vel að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandaráðs, NATO, EFTA og fleiri bandalaga, eiga gjöful og margþætt tengsl við ríki, stór og smá, í öllum álfum án þess að þörf væri að breyta fullveldisákvæðum lýðveldisins, hinum helga arfi sjálfstæðisins.

Sé hins vegar ætlun þingsins að fara nú að hreyfa við þessum hornsteini í stjórnarskrá lýðveldisins ber að vanda vel þá vegferð, gaumgæfa orðalag og allar hliðar málsins, efna til víðtækrar umræðu meðal þjóðarinnar um afleiðingar slíkrar breytingar, umræðu í samræmi við lýðræðiskröfur okkar tíma og þá þakkarskuld sem við eigum að gjalda kynslóðunum sem í hundrað ár helguðu fullveldisréttinum krafta sína.

Stjórnarskrárnefndin boðar líka tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðareign á auðlindum en slíkar hugmyndir hafa vissulega verið ítarlega og oft ræddar á undanförnum árum, jafnvel áratugum. Þær hvíla því á víðtækari og lýðræðislegri umfjöllun. Þó er einnig vandaverk að velja orðalag slíkra greina í stjórnarskrá, einkum þegar ljóst er að ágreiningur er bæði innan þings og utan um hve langt eigi að ganga, hve víðtækur rétturinn til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lög eigi að vera sem og hve afdráttarlaust eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum verði skilgreindur í stjórnarskrá, hvað muni í reynd felast í orðalagi nýrra ákvæða. Ég hef lengi talið að greinar um þjóðareign og atkvæðagreiðslur ættu erindi í stjórnarskrá en jafnframt ítrekað, bæði áður og aftur nú, að samning þeirra er vandaverk og hvorki þröng tímamörk né sparnaðarhvöt mega stofna gæðum verksins í hættu. Tenging við forsetakosningar næsta vor skiptir í þessum efnum litlu og er jafnvel andlýðræðisleg í eðli sínu. Sé talin nauðsyn að breyta stjórnarskrá í grundvallarefnum eru útgjöld vegna sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þau efni léttvæg lóð enda eðlilegt að þjóðin fái ótrufluð af öðru að vega og meta slíkar breytingar.

Auk þess er nauðsynlegt að stjórnskipun landsins sé ekki í uppnámi þegar þjóðin velur forseta að vori, uppnámi vegna óvissu um ákvæði sem beint eða óbeint breyta valdi og sessi forsetans. Því ítreka ég nú hin sömu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum, að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu, annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð. Að tengja verulegar breytingar á stjórnarskrá landsins við kosningar á forseta lýðveldisins er í reynd andstætt lýðræðislegu eðli beggja verkefnanna og gæti því aðeins komið til farsællar framkvæmdar ef breið og almenn sátt næst, bæði innan þings og utan, um stjórnarskrárbreytingarnar, að þær verði ekki sérstakt deiluefni í umræðum og baráttu við forsetakjörið. Við erum ekki svo fátækir Íslendingar að ekki sé hægt að veita þjóðinni með aðgreindum kosningum sjálfstæðan rétt til að ákveða nýskipun stjórnarskrár og kjósa sérstaklega forseta lýðveldisins, hver fái vald hans og ábyrgð í hendur. Það hvílir því, eins og jafnan áður, mikil ábyrgð á alþingismönnum, einkum þegar grundvallarréttindi þjóðarinnar og stjórnskipun lýðveldisins eru sett á dagskrá. Þá ber að vanda sérstaklega vel til verka því sagan sýnir að slík ákvæði standa lengi og móta örlög þjóðar og einstaklinga langt umfram önnur lög. Sérhver sem kosinn er til Alþingis skynjar vel slíkar skyldur, traustið sem kjörinu fylgir. Það þekki ég vel af eigin raun, tengslum sem varað hafa í hálfa öld þótt ábyrgð og staða tækju breytingum.

Þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir, minnist þeirra fjölmörgu sem verið hafa samstarfsmenn, einkum þeirra sem miðluðu mér af reynslu sinni, í raun allra sem voru samferða á þingfundum og í nefndastarfi. Alþingi hefur tengst störfum mínum stóran hluta ævinnar, mótað ríkulega ábyrgð mína og skyldur gagnvart íslenskri þjóð, fært mér lærdóma til gagns og gæfu við að sinna störfum forseta. Alþingismenn fá í hendur sögulegan arf og jafnframt tækifæri til að móta framtíðina, sækja afl í frelsi og lýðræðisskipan sem sjálfstæðisbaráttan festi í sessi. Hér ber ávallt að ganga til verka með hógværð þeirra sem vita að örlög allra eru mörkuð óvissu, að þjóðin dæmir, stundum hart, og fylgið kann að þverra án fyrirvara, enginn sem hér hlýtur sæti getur gengið að valdinu vísu til frambúðar.

Við vitum líka að sérhver tími tekur enda, að heill Alþingis og farsæld þjóðarinnar eru æðri stöðu einstaklinga. Þeir koma á vettvang og hverfa þaðan — en Alþingi sjálft varðveitir sess sinn í sögu Íslendinga.

Ég færi þinginu einlægar þakkir fyrir farsæla samfylgd og bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]