145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru áheyrendur. Mig langar til freista þess í ræðu minni í kvöld að fá stjórnvöld til þess að sjá snilldina í samvinnu og hverju hún getur skilað. Við í Bjartri framtíð trúum því að samvinna sé forsenda þess að okkur miði áfram og sé árangursríkasta leiðin til að tryggja bjarta framtíð. Mér finnst það svolítið sérstakt að standa hér uppi í þessu ræðupúlti og hvetja framsóknarmenn til samvinnu, en svona getur lífið verið skrýtið.

Ég er verulega hugsi yfir því sem ég hef upplifað hér á þingi síðustu tvö árin. Mér finnst ráðherrar oft á tíðum virka svolítið máttlausir og stundum virðast þeir ekki fá stuðning frá öðrum ráðherrum. Þeir glíma líka í sínum málum við hagsmunasamtök og jafnvel stjórnkerfið, sem getur verið íhaldssamt, og það hlýtur að vera styrkur fyrir ráðherra að hafa þingið með sér og nýta það afl sem leynist í þessum 63 þingmönnum. Ég hef líka furðað mig á því hvað það er lítil pólitísk stefnumótun í gangi og lítið um langtímahugsun. Það miðast einhvern veginn allt við fjögur ár. Í mörgum mikilvægum málaflokkum er engin stefna. Mér sýnist að framkvæmdarvaldinu veiti ekki af aðstoð og ég er að bjóða fram aðstoð hér fyrir hönd Bjartrar framtíðar.

Þessi samvinnuskortur, sem er þá væntanlega andstaðan við samvinnuhugsjónina, leiðir til mikillar sóunar í kerfinu. Við erum einhvern veginn alltaf að byrja upp á nýtt eða frestum því að taka á málum. Hvað ætli við höfum eytt mörgum milljónum eða hundruðum milljóna í vinnuhópa, nefndir, skýrslur og áætlanir sem ekkert er gert með? Hvað er mörgum skýrslum stungið ofan í skúffur í hverri viku? Hvað ætli við þingmenn setjum fram mörg þingmannamál um málefni sem á sama tíma er verið að vinna að í stjórnsýslunni? Af hverju sameinum við ekki kraftana? Við deilum vissulega um ýmis mál en mjög oft erum við nokkurn veginn á sömu línu. Það er styrkur sem við nýtum ekki eins og staðan er núna.

Mér finnst eins og stjórnvöld séu búin að ákveða að það sé ekkert hægt að eiga við stjórnarandstöðuna, hún sé á móti öllu og vilji ríkisstjórninni allt til foráttu. Ég er að segja: Það er ekki þannig. Við viljum leggja okkar af mörkum og ykkur lið í öllum góðum málum. Og hvaða góðu mál er ég að tala um? Mér finnst til dæmis það vera ábyrgðarhluti að stjórnvöld vinni ekki eftir vel útfærðri stefnu til langs tíma í geðheilbrigðismálum. Það að veita ekki góða geðheilbrigðisþjónustu er í mínum huga óásættanlegt. Ég skil ekki af hverju við nýtum ekki þjónustu sálfræðinga betur, niðurgreiðum t.d. þá þjónustu og að við skulum ekki geta tryggt gott aðgengi barna og unglinga að geðheilbrigðisþjónustu. Þetta á að vera algjört forgangsmál og það eru a.m.k. tveir þingmenn, hvor í sínum flokknum, búnir að leggja fram þingsályktunartillögu um stefnu í geðheilbrigðismálum og væntanlega er á sama tíma verið að vinna slíkt mál í ráðuneytinu. Væri kannski vit í að sameina kraftana?

Allir eru sammála um að styrkja heilsugæsluna. Hún ætti að vera fyrsti viðkomustaður og bjóða upp á fjölbreytta þjónustu. Á hverju strandar þá? Hvar er langtímastefnan?

Við bjóðum fram aðstoð okkar og ég sé í þessum sal reynslu sem ráðherra ætti að nýta sér ef honum er alvara í því að gera betur.

Ég gæti líka nefnt fangelsismálin. Hvar er langtímastefnan í þeim málaflokki? Erum við ekki öll sammála um að betrunarvist er betri kostur en refsivist eða refsistefna? Eigum við þá ekki að fara að vinna að því?

Ég er líka hugsi yfir því hvað við virðumst eiga rosalega erfitt með að fara í nauðsynlegar kerfisbreytingar. Ég get nefnt opinbera lífeyrissjóðakerfið sem dæmi. Það verður að vera að sjálfbært. Það þarf að hækka iðgjöld og greiða inn á skuldir ríkisins við B-deildina. Það þarf að hækka lífeyrisaldur og jafna réttindi á milli almenna og opinbera markaðarins. Þetta er ekki auðvelt verkefni og ekki endilega vænlegt til vinsælda hér og nú, en gríðarlega brýnt. Þetta gerist ekki nema með víðtækri samstöðu.

Annað mál er greiðsluþátttaka sjúklinga, flókið en mjög mikilvægt úrlausnarefni. Eins og með lífeyrissjóðakerfið hefur verið mikil vinna í gangi sem við verðum að klára með aðgerðum, ekki enn einni skýrslunni sem endar ofan í skúffu.

Umgjörð kjarasamninga er einnig brýnt mál. Þar horfa margir til norræna módelsins. Það er á okkar ábyrgð að búa til slíka umgjörð og það er ekki auðvelt verk en auðveldara ef við vinnum saman.

Vinna þinghóps um frumvarp til útlendingalaga er gott dæmi um að ráðherra leiti eftir aðstoð, kalli eftir samvinnu flokka og hagsmunaaðila og ég verð að hrósa innanríkisráðherrum í þessari ríkisstjórn fyrir vinnubrögðin. En ég upplifi það eftir tvö ár á þingi að ráðherrar eigi erfitt með að koma málum áfram og það virðist flækjast fyrir þeim að móta langtímastefnu. Þá skil ég ekki af hverju stjórnvöld beita ekki öllum brögðum til að gera okkur samábyrg. Við erum hér til að aðstoða og hjálpa. Kannski er þetta með að vinna saman og samvinnu bara eitthvert hjal á hátíðarstundum sem menn meina ekkert með.

Ég hef heyrt stjórnvöld og meiri hlutann tala þannig að þeir geti ekki treyst minni hlutanum. Ég gef ekkert fyrir slíkt. Í mínum huga er það bara léleg afsökun. Það er ákvörðun að treysta fólki. Ég hvet stjórnvöld til að taka þá ákvörðun. Ég fæ ekki séð að við sem höfum hrúgast hér inn á þetta þing séum eitthvað verri en aðrir til að taka ákvarðanir og njóta trausts, hvort við megum ekki alveg eins annað fólk fara í verslanir og kaupa okkur áfengi ef út í það er farið. Treystið okkur.

Það gæti kannski hljómað eins og ég sé að tala um að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið eigi að renna saman í eitt, en það er ekki það sem ég er að meina. Ég held bara að samvinna þvert á flokka, milli þings og framkvæmdarvalds, milli meiri hluta og minni hluta, sé af hinu góða. Ábyrgðin er vissulega stjórnvalda, en leyfið okkur að leggja okkar af mörkum. Það er miklu vænlegra til árangurs, ég er að segja ykkur það. — Góðar stundir.