145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Nú þegar sjö ár eru frá hruni íslenska fjármálakerfisins, ríkissjóður er að ná fyrri styrk og kjörtímabilið er hálfnað, er rétt að spyrja hvaða áform ríkisstjórnin hafi um endurreisn réttinda og þjónustu sem nauðsynlegt var að skerða sem viðbrögð við hruninu. Í kvöld vil ég því gera þrjú málefni að umtalsefni; verðtryggingu, húsnæðismál og fæðingarorlof.

Þessi ríkisstjórn var stofnuð um tvö verkefni fyrst og fremst, leiðréttingu verðtryggðra lána aftur í tímann og afnám verðtryggingar á nýjum lánum. Þetta var kjarninn í kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Óhætt er að segja að leiðréttingin hafi valdið nokkrum vonbrigðum hjá landsmönnum, ekki síst ungu fólki sem á nú erfiðara með að koma þaki yfir höfuðið vegna þeirrar hækkunar á húsnæðisverði sem fylgdi í kjölfar leiðréttingarinnar. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki verið til viðtals um leiðréttingu námslána þótt forsendubrestur námslána sé jafn mikill og húsnæðislána.

Formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra, taldi einfalt mál að afnema verðtryggingu fyrir kosningar, en lítið hefur verið um efndir eftir kosningar. Í febrúar bað ég um sérstaka umræðu við hæstv. forseta um verðtryggingu, en í tæpa fimm mánuði fram að þingfrestun sá hann sér ekki fært að verða við henni. Miðað við verkleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum þarf ekki að undra að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki viljað ræða annað mikilvægasta kosningaloforð sitt. Ég hef því lagt beiðnina um sérstaka umræðu um verðtryggingu fram að nýju. Nú sjáum við hverju fram vindur.

Kjörtímabilið er nú rúmlega hálfnað og enn hefur ekkert skref verið stigið til að auðvelda ungu fólki að komast út á húsnæðismarkaðinn eða til að draga úr kostnaði leigjenda. Húsnæðisvandi ungs fólks er stærri í dag en við upphaf kjörtímabilsins. Það hefur tekið ríkisstjórnina á þriðja ár að koma með einhver útspil í húsnæðismálum. Yfirlýsingar húsnæðismálaráðherra og stefnuræða forsætisráðherra eru hástemmdar, en ríma illa við upplýsingar í fjárlagafrumvarpinu. Á næsta ári á að leggja til stofnframlög í 400 íbúðir. Já, þið heyrðuð rétt, aðeins 400 íbúðir í félagslega kerfinu. Ríkisstjórnin kemur því ekki til móts við gríðarlegan húsnæðisvanda ungs fólks, hvorki með uppbyggingu almenns leigumarkaðar né með því að auðvelda kaup á húsnæði. Ríkisstjórnin lækkar hins vegar vaxtabætur um 1,5 milljarða.

Húsaleigubæturnar sem hafa lækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar eiga nú að hækka um 700 milljónir. Fjárlagafrumvarpið segir 1.100 milljónir, en ég minni á að þegar var búið að lofa 400 af þeim milljónum á þessu ári. Þær áttu að vera mótvægisaðgerð vegna hækkunar matarskatts en hafa ekki enn skilað sér til leigjenda. 80 þús. milljónir notaði ríkisstjórnin til að lækka skuldir þeirra sem eiga húsnæði, en leigjendur fá 700. Við í Samfylkingunni munum því enn á ný leggja fram tillögur okkar í húsnæðismálum um uppbyggingu almenns leigumarkaðar og tækifæri fyrir ungt fólk til að kaupa húsnæði.

Ef fæðingarorlofsgreiðslur hefðu þróast til samræmis við laun frá hruni væru hámarksgreiðslur á mánuði 845 þús. kr. Eftir erfiðan niðurskurð var síðasta ríkisstjórn byrjuð að hækka fæðingarorlofið aftur og lögfesti lengingu þess úr níu mánuðum í tólf. Lengingin er mikilvæg til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Núverandi ríkisstjórn hætti hins vegar við lenginguna og hefur ekkert hækkað fæðingarorlofsgreiðslur ef frá eru taldar 20 þús. kr. árið 2014. Ekki stendur til að hækka greiðslurnar á næsta ári og hámarksgreiðslur verða því áfram 370 þús. kr. Fólki er vart stætt á að taka fullt fæðingarorlof við fæðingu barns lengur og feðrum sem taka orlof fækkar ár frá ári. Við í Samfylkingunni munum leggja fram frumvarp á næstu dögum um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði, hækkun hámarksgreiðslna í 500 þús. kr. og áætlanir um frekari hækkun á næstu árum, því við jafnaðarmenn viljum að ungt fólk sjái fyrir sér framtíð á Íslandi.