145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:54]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Hér á Alþingi sitja fulltrúar margvíslegra sjónarmiða í stjórnmálum. Til einföldunar er gjarnan vísað til hægri og vinstri og alls þess á milli, til stjórnar og stjórnarandstöðu. Fréttir úr þessum sal eru oftar en ekki af átökum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og beinlínis orðaðar þannig — af átökum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Höfum hins vegar í huga að á bak við þessa einföldun liggur raunverulegur skoðanaágreiningur sem fær að mínu mati ekki nægilegt rými í sviðsljósi þingsins.

Í umræðunni um störf þingsins, bæði í þessum sal sem og utan þings, er ansi oft farið niðrandi orðum um svokölluð átök sem eiga sér stað í þingsal. Þetta lið kemur sér aldrei saman um eitt eða neitt, heyrist gjarnan. En þá gleyma menn hlutverki kjörinna fulltrúa. Hv. þingmenn eru ekki kjörnir til setu í þessum sal til að ná samstöðu um hvaðeina. Þeir eru ekki kjörnir til að láta grundvallarskoðanir sínar fyrir róða af því að þeir kunni ekki við að rjúfa einhverja fyrir fram skilgreinda samstöðu. Þeir eru ekki kjörnir til þess að leggjast marflatir fyrir annarra manna gæluverkefnum sem þeir eru mjög á móti bara af því að það eru einhver hátíðahöld í bænum. Og alþingismenn eiga ekki að gera það að sérstöku markmiði með setu sinni hér að skapa þægilega stemningu í þinginu. Menn eru kjörnir til þátttöku í löggjafarstarfinu vegna þeirra skoðana sem þeir aðhyllast, a.m.k. vegna þeirrar hugsjóna sem þeir hafa lýst sig fylgjandi. Fyrir þeim eiga menn berjast. Engri hugmynd er greiði gerður með því að hún sé ekki rædd af kappi. Flestar hugmyndir batna við að tekist sé um þær.

Vilji menn hafa í landinu lög er eðlilegt að tekist sé á um hvernig þau eru. Alþingi er fyrirtaksvettvangur fyrir slík átök. Í raun er enginn staður betri. Á Alþingi gefst mönnum kostur á að takast á um skoðanir, t.d. um það hvort það eigi að nota hið takmarkaða skattfé almennings í þetta eða hitt, hvort æskilegt sé að ríkið reki fyrirtæki en banni öðrum það, hvort náttúran eigi að njóta vafans eða maðurinn, svo dæmi séu nefnd um mál sem liggja fyrir þessu þingi og jafnan á öllum þingum þessi missiri.

Málþófið sem landsmenn urðu vitni að undir lok síðasta þings á hins vegar ekkert skylt við málefnaleg átök sem þessi. Engum duldist að með því var bara verið að forðast atkvæðagreiðslur um hin og þessi mál af því að menn sáu fyrir fram að sjónarmið þeirra yrðu undir í atkvæðagreiðslu. Það má ekki skilja mig sem svo að ég telji ekki að málþóf geti verið skiljanleg aðgerð um tíma, en hana má ekki ofnota og það á ekki að gefast upp fyrir þeim sem beita málþófi.

En er svo hræðilegt að verða undir með sitt mál í atkvæðagreiðslu í þinginu? Að mínu mati er hryllingurinn við það nokkuð ofmetinn en ávinningurinn fyrir málstað þingmannsins vanmetinn. Eins og forseti Íslands benti á við þingsetningu í dag í athyglisverðri ræðu um stjórnarskrármál, koma hv. þingmenn og fara en þingið heldur sínum sessi. Á þessu þingi vonast ég til þess að fram fari umræða um hugsjónir, t.d. um það hvort ríkið eigi áfram eitt að fá að selja einstaklingum áfengi í flöskum með tappa, um landamæri Íslands, hvort för um þau eigi að vera frjáls eða áfram heft, t.d. um það hvort menn eigi að hafa rétt á að kynna sér fjárhagsmálefni manna, um umhverfismál, t.d. um það hvort Alþingi eigi sjálfkrafa og umræðulaust að innleiða reglur ESB, stimplaðar í ráðuneytum eða um umhverfisvernd sem eiga ekkert erindi við íslenska náttúru. Ég vænti þess líka að þeir sem ekki vilja ekki afnema tolla á buxur og húsgögn segi það hreint út og að þeir sem vilja virkja hér allar lækjarsprænur láti þá skoðun í ljós. En svona mál og önnur sem þingið fær til umfjöllunar í vetur þarf að leiða til lykta með atkvæðagreiðslu, færa til bókar afstöðu þingmanna.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Það eru ekki átökin á Alþingi sem þjóðin þarf að óttast, heldur lognmollan sem í raun ríkir ef samstaða um mikilvæg mál á að byggjast á afslætti allra á hugsjónum sínum.