145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir ræðuna. Ég fagna því að það sé afgangur í ríkissjóði þó að afkomubatinn sé ekki eins mikill og áætlanir vinstri stjórnarinnar gerðu ráð fyrir að yrði á árinu 2016. Lög um almannatryggingar gera ráð fyrir að bætur hækki með ákvörðun í fjárlögum miðað við vísitölu eða almennar kjarabætur og í fjárlagafrumvarpinu er lagabókstafurinn látinn ráða en ekki sú réttlætistilfinning sem kallar á að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur fái sömu hækkanir og samið var um fyrir lægstu laun.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra eftirfarandi spurninga: Var það rætt í hæstv. ríkisstjórn að hækka bætur almannatrygginga í samræmi við hækkun lægstu launa og að hækkunin næði yfir sama tímabil? Ef svo var, hvers vegna var niðurstaðan sú að gera það ekki? Og að lokum: Hvað hefði réttlætið kostað í krónum talið?