145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt hafði það ekki verið rætt í ríkisstjórn að hækkunin yrði á sömu nótum og hækkun lágmarkslauna og ætti heldur ekki að virka aftur til 1. maí á þessu ári. Það er athyglisvert að það komi fram hér. En fyrirmynd þessa óréttlætis er nú varla tekin frá öðrum ríkisstjórnum, eða hvað?

Virðulegi forseti. Viðmiðunartölur til þess að reikna út upphæð barnabóta og vaxtabóta eru launatengdar. Gert er ráð fyrir að viðmið barnabótanna sé hækkað um 3%, en ég get ekki séð að viðmið vaxtabóta sé hækkað. Ég vil spyrja: Af hverju var viðmiðið ekki hækkað miðað við verðbólguáætlanir? Og um leið; mun þessi breyting ekki (Forseti hringir.) hafa áhrif á hag heimilanna þannig að færri heimili munu njóta þessara bóta? Hvert er samspil (Forseti hringir.) milli launahækkana og barnabóta og vaxtabóta?