145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi bætur almannatrygginga. Þær hafa ekki áður hækkað jafn mikið og þær munu gera um næstu áramót. Það er afleiðing af þróun launa í landinu og sem betur fer hefur skapast svigrúm til að hækka laun. Við skulum vona að þau hafi ekki verið hækkuð svo mikið að við stöndum frammi fyrir nýju þensluskeiði, eins og Samtök atvinnulífsins vöruðu við í blöðunum í morgun. Menn ættu ekki að gera lítið úr þeirri gríðarlegu hækkun sem verður í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ólíkt því sem þingmaðurinn segir tekur hún tillit til hækkunar launa á þessu ári líka.

Viljum við gera betur? Að sjálfsögðu viljum við gera betur. Það er hins vegar ekki rétt að setja sér algjörlega óraunhæf markmið. Vaxtabætur lækka vegna þess að laun eru að hækka og eignastaða heimilanna er að batna. Tökum umræðu um húsnæðismálin í aðeins víðara samhengi en bara vaxtabóta. Í janúar á næsta ári munum við að setja 20 milljarða til þess að greiða niður skuldir heimilanna. Það kemur til viðbótar þeim hálfa milljarði (Forseti hringir.) sem við gefum í skattafslátt í hverjum mánuði til þess að fólk geti lækkað skuldir sínar. (Forseti hringir.) Þegar þetta tvennt er tekið saman er vaxtabótakerfið eitt og sér (Forseti hringir.) lítilfjörlegt við hliðina á öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar.