145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ekki sannfærandi svar. Gilda önnur lögmál um mat? Það voru felldir niður tollar á ákveðnum tegundum grænmetis upp úr aldamótum og sú aðgerð sýndi ósköp vel að það gildir ekkert annað um mat. Innlend matvælaframleiðsla á þessum sviðum, m.a. grænmetis, gúrkum og tómötum, efldist bara við samkeppnina erlendis frá. Það eru ýmsar leiðir til að styðja við innlenda matvælaframleiðslu, t.d. í gegnum styrkjakerfi og að hafa góð gæði á þessum mat, sem betur fer njótum við þess, mikil gæði eru á innlendum mat og við njótum líka fjarlægðarverndar sem skiptir miklu máli.

Við erum að ofvernda íslenska matvælaframleiðslu og það er allt á kostnað neytenda. Auðvitað eiga sömu rök við þegar kemur að mat og öðrum vörum, fötum, skóm og hinu og þessu. Það verður að taka sjónarmið neytenda með í reikninginn í þessu öllu saman og ekki síst þegar kemur að mat. Mjög góð dæmi um niðurfellingu tolla á matvælum ættu að vera hæstv. ráðherra hvatning (Forseti hringir.) til þess að taka matvæli með í reikninginn.