145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að dæmin sem hv. þingmaður tók séu einmitt til vitnis um að það þarf að horfa til sérstakra sjónarmiða sem gilda í landbúnaðarmálum heilt yfir. Ég er alveg sammála hv. þingmanni varðandi grænmeti. Ég held að það hafi tekist ágætlega til við að gera nokkuð róttækar breytingar á sínum tíma á því sviði og grænmetisframleiðslan í landinu hefur tekið við sér og neytendur njóta góðs af því í landinu og eru nú almennt mjög ánægðir með innlendu framleiðsluna.

Það sem ég var að benda á er að menn geta ekki gert grundvallarbreytingar á svona kerfum án þess að þær eigi sér einhvern aðdraganda. Ég tel mikils virði fyrir okkur að hafa áfram framleiðslu í landinu á mjólkurafurðum, á kindakjöti, nautakjöti og á öðrum sviðum eins og hér hefur verið nefnt í grænmetinu. Breytingar á þessum sviðum þurfa að eiga sér aðdraganda og hafa undirbúning. Við getum ekki einfaldlega kippt tollunum af og skilið menn eftir í samkeppni við stórlega niðurgreidda (Forseti hringir.) matvöru annars staðar, ekki síst ef hún er síðan framleidd samkvæmt einhverjum allt öðrum gæðastöðlum (Forseti hringir.) en við förum fram á að eigi að gilda fyrir íslenska framleiðslu.