145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að gera tvær athugasemdir við ræðu hv. þingmanns varðandi kjör þeirra sem minnst bera úr býtum í samfélaginu í dag. Í fyrsta lagi ætla ég að nefna það sem ég hef áður komið inn á, að bætur eru að hækka um 9,4% og hafa ekki áður hækkað meira. Í öðru lagi var það þannig að þegar gengið var frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði í vor var sérstök áhersla lögð á hækkun þeirra launa sem eru neðst í launastiganum og var það meginniðurstaða kjarasamninganna. Skattkerfisbreytingarnar sem við kynnum hér til sögunnar passa ágætlega við þær áherslur sem náðust á vinnumarkaði og ég fullyrði að ef ríkisstjórnin hefði ekki verið tilbúin til að létta undir með millitekjuhópunum með þeim hætti sem við erum að gera hér hefði verið óraunhæft að loka kjarasamningalotunni í vor, það hefði einfaldlega verið óraunhæft. Það var tiltölulega lítið sem kom í hlut þeirra sem eru á millitekjubilinu en hlutur þeirra skánar mjög við þær skattalækkanir sem við kynnum hér til sögunnar.

Í skattalækkununum lækkum við neðsta þrepið. Það tryggir, ólíkt því sem þingmaðurinn heldur fram, að skattalækkunin nær niður allan launastigann. Það er vissulega ekki mikil skattalækkun enda tökum við einungis um 1% af launum í kringum 230–240 þús. kr. til ríkisins, 1%, restin fer í útsvar, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Við gætum auðvitað tekið ákvörðun um að borga enn meira en bara persónuafsláttinn til sveitarfélaganna og bætt við þá 10 milljarða sem við sendum þeim, en aðalatriðið er að þar er skattbyrðin langminnst — langminnst — og verður það áfram. Lægsta skattþrepið (Forseti hringir.) er að lækka og við erum að taka í gagnið nýtt skattþrep sem verður 22,5% í tekjuskattinum, lægra en það var allan valdatíma vinstri flokkanna á síðasta kjörtímabili.