145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ítrekar að bætur hafi aldrei hækkað meira en nú. Í ræðu sinni fór hæstv. ráðherra ágætlega yfir það að 30 milljarðar eru á gjaldahlið vegna launahækkana. Hann sagði jafnframt að það hefði aldrei verið meira. Bætur almannatrygginga eiga samkvæmt lögum að hækka í takt við launaþróun eða vísitölu eftir því hvort er hagstæðara fyrir bótaþega, þannig að þegar talað er um að bætur hafi aldrei hækkað meira er ástæðan sú að launabætur þær sem miðað er við, voru góðar. Þegar lægstu launin eru hækkuð umtalsvert meira en önnur laun felst réttlætið hins vegar í því að ekki er farið eftir lagabókstafnum ísköldum heldur er metin staða aldraðra og öryrkja og kjör þeirra bætt í samræmi við lægstu laun.

Ef litið er á síðasta ársreikning Tryggingastofnunar og skoðuð tafla þar sem bætur eru bornar saman við lágmarkslaun sést að þar eru tengsl á milli. Þau tengsl er verið að rjúfa með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að gera á því breytingu því að það er dagljóst að fólkið sem á í erfiðleikum, ásamt barnafjölskyldum, er einmitt það fólk sem þarf að reiða sig á bætur. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var kalda lagahyggjan gagnrýnd, en andi laganna sem sett voru á sínum tíma er að standa á vörð um þá sem þurfa að reiða sig á bætur.