145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum hækkað bætur meira en verðlag á hverju einasta ári þessa kjörtímabils. Kaupmáttur bóta hefur vaxið á hverju einasta ári. Ef við tökum árin 2014, 2015 og spá fyrir 2016 saman er uppsöfnuð hækkun verðlags 8,8% á tímabilinu á sama tíma og bætur hafa hækkað um 16,7% — 16,7%. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður staðfesti það í ræðu sinni að bætur hefðu ekki áður hækkað meira. Það er góð ástæða fyrir því að þær eru hækkaðar svo mikið núna en niðurstaðan er samt sú sem við höfum verið að tala um, að þær hafa ekki hækkað meira í aðra tíð.

Svo getum við tekið langa umræðu um hvað við getum gert til þess að gera enn þá betur. Samfylkingin virðist fylgja þeirri línu að bætur eigi að vera jafn háar launum. Ég hef efasemdir um þá stefnu. Ég tel að við þurfum að tryggja að til staðar séu réttir hvatar í kerfinu til þess að fólk sjái ávinninginn af því að fara út á vinnumarkaðinn og sækja sér vinnu. Það tel ég að sé mikilvægt. Samfylkingin virðist vera með stefnu sem gengur að stórum hluta til út á það að bótavæða samfélagið og að það sé bara í góðu lagi að hafa frjálst val um hvort maður er á bótum eða úti á vinnumarkaðnum. Ég er ekki sammála þeirri stefnu. Ég tel að það sé stóralvarlegt mál þegar við sjáum jafn öra þróun í fjölgun bótaþega og við höfum séð á undanförnum — ekki bara síðustu árum heldur síðustu tveimur áratugum. Það er gríðarlega mikil fjölgun og þar er mikið verk að vinna. Við eigum gott samstarf með vinnumarkaðnum við að vinna úr þeim vanda. Það er mikið af geðrænum vandamálum í kerfinu hjá okkur, þunglyndi sem heldur fólki frá vinnumarkaðnum. Því fólki þarf að sinna og koma því aftur til starfa. Einn liður í því er að tryggja að fólk sjái raunverulegan ávinning af því að fara aftur út á vinnumarkaðinn með þeim hætti að það geti bætt lífskjör sín um hver mánaðamót með þeim hætti líka.