145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu þótt við séum að sjálfsögðu ekki sammála um ágæti fjárlagafrumvarpsins. Ég tel að í frumvarpinu felist mikil jákvæð tíðindi. Þetta er gott frumvarp sem felur í sér stór skref í átt að einfaldara og skilvirkara skattkerfi, sem felur í sér tímamót hvað varðar áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám tolla til hagsbóta fyrir alla landsmenn, alla sem búa í okkar ágæta landi. Það er með mikilli gleði sem ég blanda mér í umræðuna í dag um þetta fjárlagafrumvarp.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður ræddi mikið um hækkun á almannatryggingum, á almannatryggingabótunum. Ég vil beina þeirri spurningum til hv. þingmanns sem hæstv. fjármálaráðherra kastaði fram í umræðunni áðan: Ef það er svo að Samfylkingin skilur ákvæðið á þann veg að bætur eigi að hækka að sömu fjárhæð og lægstu laun, hvers vegna í ósköpunum nýtti Samfylkingin, og hv. þingmaður sem sat sem fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, ekki tækifærið þá til að breyta ákvæðum laganna á þann hátt að þetta væri skýrt og stæði þar? Eða er þetta ný stefna hjá Samfylkingunni?