145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég, eins og hv. þingmaður, gleðst yfir því að við skulum vera farin að skila afgangi í ríkissjóð, að okkur hafi tekist að vinna okkur á svo stuttum tíma með svo góðum árangri upp úr efnahagshruni.

Þegar bætur almannatrygginga hækkuðu á síðasta kjörtímabili var það annaðhvort miðað við vísitölu eða launaþróun. Þær héldust í hendur við lágmarkslaun, krónutalan, eins og hv. þingmaður getur kynnt sér í ársskýrslum Tryggingastofnunar.

Það er ekki svo að Samfylkingin túlki 69 gr. laga um almannatryggingar þannig að bæturnar eigi að fylgja lágmarkslaunum. Hins vegar er greinin til þess að verja hag þeirra sem njóta bóta og lagagreinin bannar ekki að betur sé gert.

Þegar aðstæður eru þannig í samfélaginu að tekist hefur að ná svo umtalsverðum kjarabótum fyrir lægstu launin og rökin eru þau að enginn geti lifað af lægri launum, það sé nauðsynlegt að hækka launin til að líf þeirra sem eru á lágmarkslaunum sé mannsæmandi, þá eigum við, þessi ríka þjóð, að hækka bætur almannatrygginga á sama hátt.

Lagabókstafurinn bannar okkur ekki að gera betur en að fara eftir þróun launa í landinu.