145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar og athyglisverðar samræður sem hér hafa átt sér stað og skýra kannski enn frekar stefnu og viðhorf ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til þess að rifja það upp að þrátt fyrir hið gríðarlega efnahagsáfall sem við urðum fyrir í tengslum við hrun íslensku bankanna, með tilheyrandi skuldsetningu og tekjutapi ríkissjóðs, sem við öll þekkjum, þá hefur batinn staðið samfleytt frá 2010. Hann hefur, sem betur fer, skilað sér jafnt og þétt í batnandi afkomu ríkissjóðs. Það er ekki einvörðungu þessari ríkisstjórn að þakka. Eins og kom fram hjá hv. formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, þá var hér ekki eitthvert ginnungagap, lífið varð ekki til úr tómarúmi eftir kosningar fyrir rúmum tveimur árum.

Viðsnúningur hefur orðið í ríkisfjármálum og afkoman hefur batnað eins og raun ber vitni, og kannski er ástæða fyrir því. Ég hef áhyggjur af því að við stefnum aftur í svipaðan farveg og hlutirnir voru í fyrir hrun. Þá höfðu tekjustofnar ríkisins verið veiktir kerfisbundið. Það er hluti af skýringunni á ástandinu sem við stóðum frammi fyrir, tekjurnar stóðu engan veginn undir útgjöldunum út af tekjutapinu sem efnahagshrunið hafði óhjákvæmilega í för með sér. Það var því höfuðverkefni síðustu ríkisstjórnar að styrkja þá tekjustofna og það er það sem ríkisfjármálin njóta góðs af nú.

Þess vegna kemur það á óvart það sem hér er kallað fram í og rætt í pontu; eins og það hafi verið pólitískt val að skera niður. Það er með ólíkindum að hlusta á þetta. Þetta var efnahagsleg neyðarráðstöfun sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir í kjölfar hruns og vegna gjaldþrota efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í því samhengi er að sjálfsögðu höfuðatriði að við gætum þess — því miður sér þess ekki stað í frumvarpinu — að tekjustofnarnir verði ekki veiktir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir um það bil 4% verðbólgu þannig að ríkisstjórnin virðist ekki trúa því að hún nái að halda verðbólgunni niðri. Ofan í það eru boðaðar skattalækkanir sem ég hélt að hefði verið búið að sýna fram á að væru ekki góður kostur við þessar aðstæður.

Í sjálfu sér má líka velta því fyrir sér, þó að maður gleðjist yfir því að við séum að ná betri stöðu ríkissjóðs, hversu mörg prósent batinn er af vergri landsframleiðslu og hvort hann hefði getað verið meiri. Við vinstri græn teljum að svo hefði verið ef tekjustofnum hefði verið viðhaldið betur en ríkisstjórnin hefur kosið að gera. Í staðinn fyrir að sníða agnúa af tilteknu skattandlagi eins og auðlegðarskatti þá er ákveðið að framlengja það ekki og litið er svo á að sumt, sem var tímabundið, sé ekki ástæða til að framlengja en annað hefur þótt ástæða til að framlengja.

Lagt er upp með þessa kunnuglegu skattapólitík, eins og hér hefur verið rakið. Í stað þess að styðja við þá sem minnst hafa er miðað við þá sem hærri hafa tekjurnar. Ég verð að taka undir það sem hér kom fram áðan að mér finnst vera forgangsmál að við styðjum við þá sem standa neðar í skalanum frekar en þá sem eru í kringum 700 þúsund, að hlutfallslega fari meira þangað en til þeirra sem meira hafa.

Þess vegna skil ég ekki þá umræðu, sem hér átti sér stað, að þetta sé eitthvert val, að fólk kjósi sér að vera öryrki. (Fjmrh.: Það er verið að tala um …)Við erum að tala um bætur. Hér er verið að tala um að aldrei áður hafi bætur hækkað eins mikið. Sérstaklega hefur hæstv. forsætisráðherra talað í miklum og stórum orðum. Það er ekkert jafn stórkostlegt og heimsmet falla í hinum ýmsu málum, aldrei hefur meira verið gert af þessu eða hinu. Það er eins og mikil þörf sé fyrir að setja hlutina þannig fram að allt sé stærst og best.

Það er ekki nægur jöfnuður í samfélaginu. Við þurfum að gera miklu betur en gert er. Við hljótum að þurfa að leggja meiri áherslu en hér er lagt upp með á þá sem minna hafa. Við í minni hlutanum komum til með að gera við það tillögur og breytingar.

Mig langar aðeins að víkja að nokkrum þáttum í frumvarpinu af því að það er eitt og annað sem vekur athygli. Hér hefur verið farið ágætlega yfir nokkra þætti. Mig langar að fara aðeins yfir ráðuneytin og skoða tilteknar breytingar þar því að ég skil þær ekki allar. Áður en ég geri það langar mig samt í framhaldi af því sem hér var verið að ræða áðan varðandi samneysluna — það kemur fram á bls. 17, 18 og 19 í litlu bókinni, Stefna og horfur, að Hagstofan spáir 1,5–1,7% aukningu á samneyslu árlega. Það er vert að geta þess að þetta er mun minni árlegur meðalvöxtur samneyslu en síðustu 20 árin þrátt fyrir að við séum að skila hallalausum ríkisfjárlögum. Ef spáin gengur eftir fer þetta hlutfall niður í 2,1%. Hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu var á síðasta ári rúm 24%, vissulega er það með því hæsta sem gerist innan OECD-landanna en það má ekki horfa fram hjá því að þetta er mjög lágur meðalvöxtur samneyslu.

Eins og ég sagði ætla ég að fara aðeins ofan í ráðuneytin. Mig langar til að byrja á málaflokki sem er mér kær, mennta- og menningarmál, og tala aðeins um framhaldsskólana. Hér er dregin upp sú mynd að verið sé að auka verulega í gagnvart framhaldsskólunum. Það er ekki svo, það er um milljarðs kr. lækkun í málaflokkinn. Það virðist vera þannig að það sé fjármagnað með því að fækka nemendaígildum en auka framlög með hverjum nemanda. Aukningin sem á sér stað er því ekki raunveruleg aukning. Ég skil til dæmis ekki, af því að ég hef oft tekið mið af menntaskólanum í minni heimabyggð, hvers vegna þar er enn verið að fækka nemendaígildum þrátt fyrir að skólinn hafi þurft að hafna nemendum og sé að sprengja utan af sér. Svo á við um fleiri skóla. Þess í stað setur ráðherra fullt af peningum í að efla læsi um leið og hann niðurlægir stofnun við Háskólann á Akureyri. Það er líka áhugavert að við erum í 23. sæti sem landslið í fótbolta og það er alveg á heimsmælikvarða; ég held að við séum í 27. sæti í læsi og þá er allt í fári. Auðvitað þurfum við að gera betur og auðvitað þurfum við að efla læsi. Það skal enginn draga úr því en það skiptir máli hvernig hlutunum er fyrir komið og háttað. Þannig að það sem fer í mennta- og menningarmálaráðuneytið er raunlækkun, fækkun nemendaígilda og svo er viðbótarkostnaður vegna vinnumats framhaldsskólakennara. Þetta verður til þess að ekki er verið að koma til móts við fjöldann. Á síðasta ári, í þeim fjárlögum sem við erum að vinna eftir í dag, voru möguleikar 25 ára og eldri til náms skertir — þannig að hér er enn verið að reyna steypa fólk í sama mót. Kerfið okkar er ekki að þjóna fjöldanum heldur bara sumum.

Það er talað um nýjungar í skólastarfi sem er lesið sem svo að það eigi að efla skólastarf. Það er vert að spyrja, þegar talað er um tónlistarnámið, eflingu þess, hvað ráðherrann á við. Um hvað snýst þetta? Snýst þetta um einn einkarekinn tónskóla í höfuðborginni eða hvað?

Það eru alla vega ein ánægjuleg tíðindi hér. Vissulega er — og ekkert úr því að draga — bætt í listir og menningu, sem er af hinu góða, enda var búið að skera þann lið töluvert niður eða öllu heldur var framkvæmdaáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar ekki fylgt eftir. En gólfið svokallaða heldur í litlu framhaldsskólunum, það er ánægjulegt að sjá.

Það er eitt sem ég hef áhyggjur af varðandi jöfnun á námskostnaði; þar er skorið niður. Það er fyrir landsbyggðarfólkið okkar unga sem sækir sér menntun úr heimabyggð, þar er skorið niður. Það er 50 millj. kr. lækkun sem er reyndar að frátöldum launa- og verðlagsbótum, það eru sem sagt 27. milljónir teknar úr þeim lið sem er nú ekki svo stórkostlegur. Þetta er einn þátturinn í ójöfnuði, þetta breikkar bilið milli landsbyggðar og höfuðborgar, fækkar tækifærum. Það þarf að reyna að skoða aðeins, og við ræðum það væntanlega á morgun við mennta- og menningarmálaráðherra, hvernig hann sér fyrir sér fækkun á nemendaígildum í þessum skólum og hvort hér er um misskilning að ræða.

Varðandi byggðamálin, námstækifæri eru vissulega hluti af þeim, langar mig að spyrja um 500 millj. kr. framlag sem kemur fram á bls. 355 í frumvarpinu. Það er 500 millj. kr. framlag sem átti að vera vegna viðhalds flugvalla á landsbyggðinni. Ég veit ekki betur en að eingöngu sé búið að laga flugvöllinn á Gjögri, aðra ekki. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort klára eigi þá flugvelli sem ætlunin var að gera á þessu ári. Og ef ekki, af því að þetta er fellt út úr frumvarpinu, hvort ákveðið hafi verið að hætta við framkvæmdirnar eða hvort þetta flyst á milli ára á einhvern annan hátt. Þetta er mjög mikilvægt og skiptir þessar byggðir gríðarlega miklu máli.

Mig langar líka að skoða byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta. Ég hefði viljað sjá mun meiri fjármuni setta í það eins og við höfum rætt hér töluvert. Eftir mikið harðfylgi var aukið í það á yfirstandandi ári. Þetta er verkefni sem sveitarfélögin hafa mikinn áhuga á og er talið hafa skilað þeim miklu; og skrýtið að ekki sé aukið meira við þar en raun bera vitni.

Áfram varðandi flugið. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. framlag til styrkingar innanlandsflugi. Mig langar til að spyrja hvort þetta sé hluti af þeim aðgerðum sem hópurinn lagði til til að lækka kostnað innanlandsflugsins. Það er jú eitt af baráttumálum landsbyggðarinnar að það sé ekki svona gríðarlega dýrt að fljúga en stundum eru ekki aðrir möguleikar til að koma sér á milli staða þegar sækja þarf þjónustu sem einvörðungu er veitt á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að það hafi þurft í kringum 200 milljónir á ári til að lækka fargjöldin um 17%. Mig langar til að fá það staðfest hvort það er framlag sem á ekki að taka inn í myndina eða hvort þetta er eitthvað annað.

Snjómoksturinn — hallinn heldur áfram. Þrátt fyrir það eru settir þarna inn einhverjir smáfjármunir. Það er algjörlega óásættanlegt að ekki sé meira lagt í viðhald vega. Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvers vegna það er ekki gert.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í Bakka. Í frumvarpinu virðist vera tekið af vegafé, sem aldrei var ætlunin að gera, til þess að setja í það (Forseti hringir.) verkefni og þá um leið er væntanlega ákveðið að setja ekki fjármuni í öll þau verkefni sem eru svo brýn.