145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera stutta athugasemd. Ef hv. þingmaður var að vísa til samskipta milli mín og hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur áðan þá var enginn að tala um að það kjósi sér margir að verða öryrkjar. Ég var ekki síst að vísa til þess að Samfylkingin hefur oft talað um að það væri sanngjarnt og eðlilegt að atvinnuleysisbætur væru jafn háar lægstu launum. Það tel ég að sé ekki góð stefna. Ég tel að stefnan fyrir þá sem geta farið út á vinnumarkaðinn, þ.e. að stefnan eigi að vera þannig að það sé augljós ábati af því, augljós ávinningur til staðar. Ég tel reyndar að við höfum verið að gera breytingar, og sveitarfélögin líka, til að skapa slíka hvata á undanförnum árum.

Hvað snýr að öryrkjum og lífeyrisþegum þá tel ég að það sé ágætlega sameiginleg stefna flokkanna sem eru á Alþingi að gera betur við þá hópa. Ég er hér að boða hækkanir á bótum sem eru umfram það sem við höfum venjulega svigrúm til að gera. Það þarf hins vegar líka að taka þau kerfi til endurskoðunar og um það snýst vinnan við breytingar á almannatryggingakerfinu. Það þarf í tilfelli öryrkjanna að taka dýpri umræðu um starfsendurmat, starfshæfnismat, til þess að gera þeim sem hafa einhverja starfsgetu betur kleift að sækja vinnu án þess að það hafi neikvæðar afleiðingar á framfærslutekjur þeirra hópa. Þetta finnst mér vera mikið sanngirnismál. En það er enginn að tala um að fólk sé að kjósa að vera á örorkubótum eða láta dæma sig til örorku, þannig á það ekki að vera. Við erum enn, því miður, með of mikið af ósanngjörnum tekjutengingum í þessum kerfum og þess vegna er vinnan við endurskoðun á kerfunum svona mikilvæg.

Varðandi þá leið sem síðasta ríkisstjórn valdi að fara gagnrýndum við hana á þeim tíma fyrir að vera (Forseti hringir.) of brött í því að hækka skatta og nú erum við ná þeim árangri að lækka milliþrepið sem það var úr 25,8% í 22,5%. Það er nýtt lægsta (Forseti hringir.) og miðþrep sem er lægra en gamla lægsta þrepið. Þetta tel ég að sé mjög mikilvæg stefna, góð stefnubreyting.