145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var nefnilega þannig áðan þegar ég vitnaði til þeirra samræðna sem fóru fram milli hæstv. ráðherra og hv. þingmanns að sá þingmaður nefndi aldrei atvinnuleysisbætur. Það var verið að ræða um almannatryggingar og bætur eldri borgara og öryrkja, það var ekki sérstaklega verið að ræða um atvinnuleysisbætur.

Auðvitað þarf að vera einhver ávinningur af því að fara út á vinnumarkað. Til dæmis þegar við stöndum frammi fyrir því, svo við förum í atvinnuleysið, að vera með ungt atvinnulaust fólk fær það ekki nægjanlega niðurgreiðslu ef það treystir sér ekki til að sitja á skólabekk en vill gjarnan vera í skóla í fjarnámi eða öðru slíku. Það fær það ekki niðurgreitt nema að afar takmörkuðu leyti. Það er eitt af því sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur komið á í sinni tíð. Ég er sammála því að við þurfum að búa til kerfi þar sem skerðing, t.d. króna á móti krónu, á sér ekki stað. Ég er ánægð að heyra að farin er af stað vinna en hún má ekki taka of langan tíma. Það eru svo margir sem vilja taka þátt í samfélaginu en gera það ekki vegna þess að kerfið okkar er svona.

Varðandi tekjuskattsþrepin er það bara hægri stefna en ekki stefna sem við vinstri græn fylgjum. Við teljum að fjölþætt þrepaskipting tekjuskatts sé líklegri leið til jöfnunar en flatt tekjuskattskerfi, sem núverandi ríkisstjórn stefnir að og hefur hún lýst því hér yfir að helst vilji hún hafa eitt skattþrep. Það er augljóslega allt önnur nálgun en okkar á því. Þrátt fyrir að neðsta þrepið lækki örlítið þá erum við samt, eins og kom fram áðan, með fólk á bótum eða launum (Forseti hringir.) sem eru svo lág að þau duga ekki fyrir framfærslu sem velferðarráðuneytið setur sér sjálft.