145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er um margt áhugavert fjárlagafrumvarp og þetta eru áhugaverðir tímar í ríkisfjármálum. Ég held að við séum að horfa á betri tíð, horfa á viðsnúning, og mér finnst það sanngirnismál, þegar maður segir það, að láta þess kirfilega getið að þróunin í þá átt hófst ekki vorið 2013, með einhverjum ákvörðunum sem þá voru teknar, að við séum að uppskera eitthvað út af því. Eins og margir hafa rætt hér í dag værum við ekkert að horfa á þennan árangur í ríkisfjármálum, þennan hallalausa rekstur, þennan afgang, nema vegna þeirra ákvarðana, mjög erfiðra ákvarðana, sem voru teknar í eftirleik hrunsins af þáverandi ríkisstjórn sem náði niður með mjög erfiðum aðgerðum um 200 milljarða halla. Ef það hefði ekki verið gert værum við auðvitað ekkert að horfa á þá stöðu sem er núna. Sú ríkisstjórn tók líka mjög mikilvægar ákvarðanir sem nýtast okkur núna í viðureigninni við afnám hafta og uppgjör búa gömlu bankanna. Mér finnst mjög mikilvægt, í þágu stjórnmálaumræðunnar í landinu, í þágu heilbrigðrar umræðu, hófstilltrar og auðmjúkrar og sanngjarnrar, að geta þess að að þessu verki hafa mjög margar hendur komið og erfiðar fórnir hafa verið færðar.

Að því sögðu er eðli þessara tímamóta, þeirra straumhvarfa í ríkisfjármálum sem við erum að horfa á, þannig að mjög rík þörf er til þess að skilgreina hlutina núna; að setjast niður í ríku samtali og reyna að skilgreina hvert við viljum fara. Hættan á þenslu er mikil í þessum kringumstæðum og hættan á mjög hefðbundnum íslenskum hagstjórnarmistökum er mikil og maður sér aðeins glitta í það. Það er verið að fara í stóriðjuframkvæmdir, einkaneysla er að aukast mikið, það á að keyra á neyslusköttunum frekar en tekjusköttunum, það á að lækka þá, vextir eru byrjaðir að hækka. Það sér alveg í kollinn á klúðrinu, sérstaklega þegar kosningar nálgast og hundruð milljarða koma að öllum líkindum inn í ríkissjóð. Það þarf að halda vel á spöðunum. Ég held að samtal, markmiðssetning og langtímahugsun séu algjört lykilatriði á þessum tímapunkti.

Þá vil ég nefna eitt dæmi um vel heppnaða nálgun sem er aukning á framlögum til nýsköpunar og þróunar, aukning á framlögum til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs og raunar er líka aukning á framlögum til ýmissa listsjóða, samkeppnissjóða í listgreinum og skapandi greinum. Ég fagna þessu. Hér er einmitt dæmi um það að aðilar sem starfa á þessum vettvangi og ríkisvaldið og aðrir settust niður og settu sér markmið og skilgreindu þörfina á fjárframlögum, hvað þyrfti að koma til til þess að hægt væri að ná verulegum árangri. Um leið og ég fagna því að á þessi sjónarmið hefur verið hlustað og eftir þessum áætlunum hefur, að mestu leyti held ég, verið farið verð ég líka að lýsa furðu minni á því að það skyldi hafa verið ein af fyrstu ákvörðunum núverandi ríkisstjórnar, þegar hún tók við völdum, að blása af ákvarðanir í þessa veru sem höfðu verið teknar á síðasta kjörtímabili. Þar á ég við fjárfestingarstefnu þáverandi ríkisstjórnar sem við, þáverandi þingmenn Bjartrar framtíðar, höfðum ríka aðkomu að; við áttum ríkt frumkvæði að því að hún var samþykkt hér á þinginu. Hún var einmitt um þetta, að auka þessa tegund af fjárfestingum, auka framlög til skapandi greina, rannsókna, nýsköpunar og þróunar. Mér finnst undarlegt að hafa gert það að sínu fyrsta skrefi að hætta við alla þá áætlunargerð og allar þær fjárfestingar með furðulegum rökstuðningi um að tekjur hafi ekki verið tryggðar til þessa verkefnis, sem var rangt, en koma svo síðar og setja peninga í þessa átt. Um leið fagna ég því en mér finnst þetta líka sýna svolítið furðuleg stjórnmál. Auðvitað er þetta verkefni sem við erum, held ég, öll í þessum þingsal sammála um að eru skynsamleg og hefði bara átt að halda þeim áfram og láta af þessu hiki.

En ég segi að þetta sé dæmi um eitthvað sem er gott, að þarna er skilgreind þörf á peningum og þarna er farið til móts við og unnið samkvæmt áætlunum. En það vantar mjög víða. Ríkisstjórnin trommar fram og segir: Þetta eru velferðarfjárlög. Ég er ekki reiðubúinn að taka undir það. Ég er ekki reiðubúinn að gefa ríkisstjórninni þá einkunn að þetta séu velferðarfjárlög. Hver eru skilgreindu markmiðin í heilbrigðisþjónustunni? Hvert ætlum við að fara með spítalann? Hvert ætlum við að fara með heilsugæsluna? Hvar ætlum við að staðsetja okkur varðandi lyfjainnkaup? Við erum mjög aftarlega á merinni núna, mjög afturhaldssöm í kaupum á nýju lyfi svo að dæmi sé tekið. Þetta eru stórir kostnaðarliðir. Hvert ætlum við að fara með lýðheilsumál á Íslandi? Landspítalinn hefur sagt að til þess að vera á pari við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum þurfi tugi milljarða í viðbót í fjárframlög til spítalans. Svo mikið var skorið niður. Það að verið sé að gefa í núna, í fjárveitingum til spítalans og til heilbrigðismála, er auðvitað ágætt en það skýrist að stórum hluta af launaliðum og líka bara einfaldlega af því að heilbrigðiskerfið, eftir mörg erfið ár, augljós erfið ár í ríkisrekstrinum, var auðvitað komið á þann stað að það var ekki hægt að skera meira niður. Það var augljóst mál að það þurfti að snúa því við og ég held að allir hafi gert ráð fyrir því að það yrði gert einhvern tímann á þessum tímapunkti.

Það er ekki hægt, þó að af augljósum ástæðum sé verið að snúa við umtalsverðum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, að kalla þetta velferðarfjárlög. Ég bíð spenntur eftir andsvari hv. þingmanns hvað þetta varðar.

Ég held nefnilega að til þess að hægt sé að tala um velferðarfjárlög þegar kemur að heilbrigðismálum þurfi að vera fyrir hendi og liggja uppi á borðum miklu skýrari áætlunargerð og markmiðssetning um það hvert við ætlum að fara. Ég held að við eigum enn langt í land og það kom ágætlega fram í fréttum morgunsins í Fréttablaðinu þar sem greint var frá því að til viðhalds á Landspítalanum þyrfti umtalsvert meiri fjárhæðir en hér er gert ráð fyrir, einfaldlega til að vinna bug á myglusveppum og öðru. Á þessum stað er heilbrigðiskerfið. Það þarf einfaldlega meira og við þurfum að vita hvert við ætlum að fara.

Tökum vegakerfið. Fjármagn til viðhalds vega var algjörlega skorið við nögl um langt árabil, af augljósum ástæðum, eftir hrun. Á þeim stað erum við með vegakerfið og samgöngurnar. Nú finnst mér vanta, á þessum tímapunkti, áætlunargerð, greiningu á þörfinni, á því hvað þarf að leggja til vegagerðar á Íslandi svo að við séum ekki einfaldlega að horfa upp á það að vegirnir skemmist og við þurfum að byggja þá upp á nýtt. Þetta vantar.

Á mjög mörgum sviðum, til dæmis í menntamálum, sé ég enga skýra framtíðarsýn. Það er einhver aukning til menntamála og stærstu tíðindin í menntamálum í frumvarpinu eru þau að efna á til átaks í leskunnáttu barna. Ég lít ekki á lestrarkennslu sem átaksverkefni, ég held að þetta eigi ekki að vera átak, þetta á að vera langtímaverkefni þar sem við setjum okkur langtímamarkmið. Við kennum ekki lestur með átaki. Mér finnst það svolítið röng hugsun, mér finnst vanta langtímamarkmiðssetningu inn í alla þessa veigamiklu útgjaldaliði fjárlagafrumvarpsins.

Ég hegg eftir því að í forsendum fjárlagafrumvarpsins er talað um aukningu á fjárfestingu. Það er vissulega kærkomið og hljómar vel að það sé aukin fjárfesting í landinu. Mér hefur lengi fundist það vera alveg augljóst að eftir mörg mögur ár, sem mér hefur orðið tíðrætt um, þyrfti að fjárfesta í innviðum. Það þarf að fjárfesta í vegakerfinu, það þarf að fjárfesta í fjarskiptum. Það þarf að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustu, það er augljóst mál. Ef við gerum það ekki getur slík tegund af fyrirhyggjuleysi einfaldlega leitt til þess að sá iðnaður kollsteypist. Þetta hefur mér fundist vera frekar augljóst þannig að þegar ég sá í forsendum fjárlagafrumvarpsins að fjárfestingar mundu aukast fylltist ég smábjartsýni. En svo þegar maður fer að rýna í þetta þá spyr maður: Hvers lags fjárfestingar eru þetta? Þetta eru atvinnuvegafjárfestingar. Og hvers lags atvinnuvegafjárfestingar? Jú, til stóriðju. Þetta er það, þetta er gamla módelið í hagstjórn Íslendinga sem við höfum ítrekað, held ég, sopið seyðið af og er ekki skynsamlegt.

Það stendur beinlínis í fylgiriti frumvarpsins að þessar fjárfestingar til Bakka og Helguvíkur, hvað sem segja má um þær, hafi ruðningsáhrif. Þær leiða til þess að sveitarfélögin verða til dæmis að halda að sér höndum. Við þurfum að halda að okkur höndum í annarri tegund fjárfestinga sem mér finnst miklu augljósari. Það er farið í þessar fjárfestingar, m.a. með þeim rökstuðningi að það þurfi að skapa störf. Á fjárfestingar- og uppbyggingartímanum er það hins vegar aðallega innflutt vinnuafl sem kemur að þessu verki. Það er kannski allt í lagi en mér finnst það veikja grundvöll þessarar röksemdafærslu að það eigi að fara í þetta til að skapa störf. Þetta eru ríkisstyrktar framkvæmdir þannig að þetta er ekki eiginleg atvinnuvegafjárfesting, þetta er opinber fjárfesting. Og er það skynsamlegt til dæmis, eins og hér var rakið áðan, að taka peninga af vegafé til að setja í þessa framkvæmd á Bakka, svona afmarkaða framkvæmd? Ég horfi á atvinnuuppbyggingu undanfarinna ára allt öðrum augum. Það hafa orðið til ein 7 þúsund störf, mætti halda fram, í ferðaþjónustu. Ég held að ferðaþjónustan, sem er að hjálpa okkur mjög mikið, og einfaldlega internetið, skapi miklu fleiri störf, skapi miklu meiri hagvöxt. Mér finnst þessi stóriðjufjárfesting óhemjugamaldags og ég er hugsi yfir því að menn skuli fara í þetta með opin augu gagnvart ruðningsáhrifunum sem þetta hefur, á tímum þar sem þörf á opinberri fjárfestingu — þörf á fjárfestingu í innviðum, fjarskiptum, vegum, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, löggæslu og dómskerfi og þar fram eftir götunum — er svona æpandi. Mér finnst þetta vera eitthvað sem hefði mátt huga að.

Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir hugsjónir sínar í umræðum um stefnuræðu í fyrradag. Ég get deilt mörgu í hans sýn á málin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að treysta fólki og að frelsi eigi að vera ákveðið leiðarljós. Ég held að það sé heilbrigt samfélag sem er frjálst samfélag, en frelsi þarf að fylgja ábyrgð. Það þarf líka að efla ábyrgð í samfélaginu. Þar geri ég veigamiklar athugasemdir, að mínu mati, við hugsunina í fjárlagafrumvarpinu. Mér finnst það ekki vera til þess fallið að auka ábyrgð í frjálsu samfélagi að ríkisvaldið taki að sér, nánast yfir línuna, að borga ákveðinn hluta einkaskulda fólks. Mér finnst það ekki, mér finnst það dæmi um mjög furðuleg inngrip í markað og furðuleg ríkisafskipti og mjög kostnaðarsöm og óréttlát.

Ég hegg eftir því að í fylgiriti fjárlagafrumvarpsins er talað um að markmið í skuldamálum heimilanna hafi náðst. Nefndar eru tölur sem eru fyrir síðustu áramót, fyrir áramót 2014/2015. Þá er sagt að góðum markmiðum hafi verið náð varðandi skuldastöðu heimilanna og að skuldastaða heimilanna sé svipuð og 2004. Þetta er áður en skuldaleiðréttingaráform ríkisstjórnarinnar komu til framkvæmda þannig að þegar hafði markmiðinu verið náð. Af hverju var þá farið út í þessar aðgerðir? Af hverju var farið út í það að deila út þessum peningum á svona rosalega óábyrgan hátt?

Ég hef áður nefnt ríkisstyrkta stóriðju sem er grundvöllur að aukningu fjárfestinga á komandi árum. Það hljómar ekkert sem einhver stefna um frelsi og ábyrgð.

Húsnæðismarkaðurinn — það liggur fyrir að það verður einfaldlega megininnlegg ríkisstjórnarinnar í hann að byggja hús, að fara í mjög miklar framkvæmdir við húsbyggingar, byggja félagslegar íbúðir. Ég veit það ekki alveg, ég hef ekki markað mér afstöðu til þess, en er það fullreynt að reyna frekar að ná byggingarkostnaði niður með breytingum á byggingarreglugerð, að fara frekar inn í gjaldaumhverfið allt saman (Forseti hringir.) og reyna frekar að efla þennan markað á sjálfbærari hátt? Eða mun ríkisvaldið alltaf byggja hús, þegar það þarf hús? Ég er ekki alveg viss um að það sé góð efnahagsstefna.

Það var fjölmargt fleira sem ég ætlaði að ræða um en það bíður betri tíma.