145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru fjölmargar og viðamiklar spurningar. Jarðefnaeldsneytið, það er alveg fyrirliggjandi að tæknin er handan við hornið og maður þarf ekki að tala lengi við lærða verkfræðinga á því sviði til þess að verða það algerlega ljóst, en auðvitað er ekki hægt að gera neitt svona á morgun. Ég vek einfaldlega athygli á því sem mér finnst svo augljóst að notkun jarðefnaeldsneytis er einhver mesta umhverfisvá sem blasir við heimsbyggðinni, veröldinni, og vegna ýmislegs sem við höfum gert í fortíðinni, við hitum upp húsin okkar án jarðefnaeldsneytis og þar fram eftir götunum, þá getum við með réttri markmiðssetningu orðið fyrirmynd annarra þjóða og sýnt fram á að þetta sé hægt á löngum tíma. Það er mín trú.

Ég var ekki, hv. þingmaður, að kalla eftir því að það yrði einfaldlega dælt út peningum á þessum tímapunkti til allra þeirra grunnstoða samfélagsins sem hv. þingmaður nefndi. Það sem ég var að tala um er að mér finnst vanta í grundvöll umræðunnar um fjárlögin hver þörfin er og hvert við ætlum að fara. Ég held reyndar að með löggjöfinni um opinber fjármál, sem við samþykkjum vonandi í þinginu, þá standi þetta til bóta, að við ræðum meira hvert við ætlum að fara með heilbrigðiskerfið. Ég tek til dæmis undir það að við getum ekki haft þau markmið að bara kaupa öll þau nýju lyf sem framleidd eru í veröldinni. Við getum hæglega, eins og þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, eytt öllum okkar peningum í heilbrigðismál. Það er hæglega hægt, en eftir stendur spurningin: Hvar ætlum við að vera? Á undanförnum árum til dæmis höfum við dregist aftur úr þegar kemur að lyfjainnkaupum, nýjum lyfjum, vegna þess að við erum ekki með stóran lyfjaiðnað sjálf og njótum ekki góðs af því þannig að á þessum árum erum við komin á par við Breta sem eru afturhaldssamir en eru hins vegar með lyfjaiðnað. (Forseti hringir.)

Ég auglýsi eftir opinni umræðu um það hvert er skynsamlegt að fara með þetta allt saman en ég er ekki að auglýsa eftir einhverjum fyrirhyggjulausum (Forseti hringir.) og hömlulausum fjárútlátum á þessari stundu.