145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi húsnæðismálin þá lít ég svo á að það sé fullkomið forgangsatriði að ná niður vöxtum á Íslandi til langs tíma. Það kemur mér alltaf jafn spánskt fyrir sjónir hvað það er erfitt að ræða það. Mér finnst það vera hið augljósa markmið ef við ætlum að koma á heilbrigðum húsnæðismarkaði þar sem við erum ekki alltaf í skammtímalausnum og reddingum, að reyna að halda úti Íbúðalánasjóði með ærnum tilkostnaði, halda uppi kerfi vaxtabóta sem er að mörgu leyti alls ekkert skynsamlegt, að það skuli vera svona erfitt að ræða sjálfan grundvöllinn. Allt þetta, verðtryggingin, sérstakur Íbúðalánasjóður, vaxtabætur, ástandið sem við erum í núna að fara að byggja húsnæði og reyna einhvern veginn að stoppa upp í þetta kerfi, er út af því að Ísland er of dýrt, fjármagn á Íslandi er of dýrt. Við í Bjartri framtíð segjum að það sé meðal annars út af gjaldmiðlinum, ekki bara honum, og við leggjum því ítrekað fram tillögu til Alþingis um að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þar sem reynt verði að byggja upp og steypa stöðugan grundvöll efnahagslífsins sem þarf að vera fyrir hendi. Þá munum við sjá kringumstæður á Íslandi sem eru sambærilegar og víða erlendis, lága vexti og heilbrigðan lánamarkað með húsnæðislán. Þangað eigum við að stefna.

Það er megininntak ræðu minnar að mér finnst vanta skýrari markmiðssetningu almennt séð í grundvöll fjárlagafrumvarpsins og efnahagsmálin. Varðandi heilbrigðismálin, jú, það er vissulega verið að gefa í (Forseti hringir.) en ég er ekki reiðubúinn að segja að þetta séu velferðarfjárlög fyrr en ég veit hvert á að stefna (Forseti hringir.) og hvort það muni koma út úr þessu góð heilbrigðisþjónusta, heilsugæsla, lýðheilsustefna og öflugur spítali. (Forseti hringir.) Ég er ekkert viss um það núna.