145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með það fjárlagafrumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um stóru myndina. Ég held að við hljótum að styðja það — og ég vona að svo sé meðal allra flokka — að við nýtum þá fjármuni sem koma í ríkissjóð til að lækka skuldir. Það er lykilatriði. Sem betur fer eru fjármunir, í kjölfar vel heppnaðra aðgerða við losun gjaldeyrishafta, að koma inn í ríkissjóð. Það verður að nota þá til að greiða niður skuldir. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru á þessu ári hærri en sem nemur öllum framlögum til reksturs Landspítalans og Sjúkratrygginga og mun lækka nokkuð ef áætlanir um fjárlög ganga eftir.

Það verður freisting að nýta þá fjármuni sem koma inn í ýmis þörf verk en það má bara ekki verða. Á meðan við erum með þann mikla vaxtakostnað sem nú er erum við með skipulegum hætti að skerða lífskjör barna okkar og barnabarna, það er ekkert flóknara en það. Ég vonast til þess að þó við tökumst á um ýmis mál þá verði sátt um þennan þátt málsins, þ.e. að nýta þá fjármuni sem koma inn til að greiða niður skuldir — og þá erum við fyrst og fremst að hugsa til barna og barnabarna okkar sem eigum börn og barnabörn en annars fyrir komandi kynslóðir.

Það er margt sem hér er ofmælt og ég ætla ekki að fara í gegnum það allt saman í þessari stuttu ræðu, ég ætla að taka einstaka þætti út. Fyrst ætla ég sérstaklega að fagna því hve stór skref við höfum stigið í átt til aukins viðskiptafrelsis. Fyrst voru það vörugjöldin sem voru afnumin, sem var risaskref — óhugnanlega flókið kerfi — og núna erum við að taka niður tollana. Allt er þetta, bæði tollarnir og vörugjöldin, til komið vegna þess að hér var ákveðin hugsun í gangi og ákveðin löggjöf sem gekk út á það; ég held að lögin hafi heitið Lög um óþarfainnflutning. Þar voru reyndir stjórnmálamenn að hækka verð á ýmsum vörum sem þeir töldu vera óþurftarvörur fyrir almenning. Við vorum hér með fullkominn frumskóg um vörugjöld og tolla og í stað þess að reyna að fara inn í þann frumskóg og reyna að grisja til þá leggur hæstv. fjármálaráðherra hið eina rétta til og það er að eyða þessum skógi sem er öllum til ama. Ég verð að viðurkenna að mér finnst furðulegt að sjá viðbrögð sumra aðila við þessum áætlunum og sérstaklega finnast mér viðbrögð ASÍ furðuleg. Þar á bæ tala menn sérstaklega um að ekki sé gott að gera þetta 1. janúar út af útsölum. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir hagsmunasamtök sem eru að berjast fyrir þá sem minnst mega sín, alla vega í orði kveðnu, þau hljóta að gleðjast yfir þessu því að bæði tollar sem og aðrar álögur á innfluttar vörur eru fyrst og fremst fátæktarskattur einfaldlega vegna þess að þeir sem hafa meira á milli handanna geta farið til annarra landa og keypt sér þessar vörur á meðan þeir sem hafa minna á milli handanna verða að kaupa þetta hér heima.

Ég hef lagt fram, með öllum hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, og mun leggja aftur fram, þingsályktunartillögu um viðskiptastefnu Íslands sem hefur það að markmiði að skilgreina viðskiptastefnu okkar til að styðja verslun og viðskipti í landinu. Við erum í harðri samkeppni við útlönd. Þetta tengist fleiru en því fólki sem starfar við verslun, þetta snýr líka að ferðaþjónustunni. Það eru meiri líkur á því að við getum verið hér með góða og öfluga ferðaþjónustu og getum undirbyggt hana ef verslunin okkar er samkeppnishæf við það sem gerist annars staðar. Og það er ánægjulegt að sjá — þó að hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem er prýðisnefnd og hefur gert margt gott, klári ekki þetta mál af einhverjum aulaskap — að það sem er lagt upp með í viðskiptastefnunni er meira og minna að komast í framkvæmd undir forustu hæstv. fjármálaráðherra. Ég er mjög ánægður með það.

Ég vil einnig lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þá fyrirætlun sem kemur fram í því að við séum hér að festa séreignarsparnaðarleiðina í sessi. Séreignarsparnaðarleiðin í húsnæðismálum gengur út á það að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Við höfum verið hér með mjög sérkennilegt fyrirkomulag sem fyrst og fremst hefur gengið út á það að hvetja fólk til að skulda í húsnæðinu og það hefur haft skelfilegar afleiðingar, með svokölluðu vaxtabótakerfi. Nú er okkur sem betur fer, og það sést í fylgiriti fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu, að takast að hjálpa fólki að greiða niður skuldir, sem er lykilatriði. Það verða áföll, bæði hjá þjóðum og hjá einstaklingum, og þá skiptir gríðarlega miklu að fólk sé með eins litlar skuldir á húsnæðinu og mögulegt er. Þegar fólk lendir í slíkum áföllum að það þarf að selja ofan af sér og fara í annað húsnæði þá eru aðstæður á markaði oft slæmar. Bæði er það fjárhagslega afskaplega óhagkvæmt en sömuleiðis getur það verið mikið rof fyrir fjölskyldur, t.d. varðandi það hvar börn eru í skóla og annað slíkt. Við eigum að nýta þessa gríðarlegu fjármuni — því að við höfum sett gríðarlega fjármuni í vaxtabætur, ekki minni fjármuni en settir voru í leiðréttinguna svokölluðu á undanförnum árum — í að hjálpa fólki að greiða niður höfuðstólinn, hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Það sama á við ef fólk er að eignast sitt fyrsta húsnæði, við eigum að skapa þær aðstæður að það geti auðveldlega eignast húsnæði. Þar er pottur brotinn og það snýr ekki bara að ríkisvaldinu. Það snýr sérstaklega að sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu og þó sérstaklega að Reykjavík þegar kemur að hlutum eins og framboði af lóðum og ýmsum kostnaði sem því tilheyrir.

Það er óþolandi að ungt fólk geti ekki keypt sér húsnæði í dag en það er staðreynd. Því þurfum við að breyta og það að festa í sessi að fólk geti nýtt sér séreignarsparnaðarleiðina, sem er í raun niður greidd bæði af ríkissjóði og atvinnurekanda, til að kaupa sína fyrstu íbúð og greiða niður skuldir er mjög góð leið; af öllum þeim þáttum sem ríkisstjórnin hefur farið í er þetta besta einstaka leiðin. Ég hef barist fyrir þessu frá árinu 1995 þegar ég kom fyrst fram með þessar hugmyndir ásamt hagfræðingunum Magnúsi Árna Skúlasyni, þá fyrir hönd Sambands ungra sjálfstæðismanna, með Böðvari Jónssyni bæjarfulltrúa og fleira góðu fólki og ég mun berjast fyrir þessu áfram. Ég lít á þetta sem mikinn sigur og mikið gleðiefni. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson studdi okkur að sjálfsögðu alltaf þegar hann gat í þeirri baráttu svo að það sé fært inn í þingtíðindi.

Það eru margir hlutir sem eru afskaplega mikilvægir og ég fagna. Eins og ég nefndi áðan kemur það fram í fylgiritinu að okkur er að takast að lækka húsnæðisskuldir heimilanna. Mér finnst lítið um það rætt, einhverra hluta vegna, en þetta eru allt saman stórmál.

Mér hefur fundist svolítið sérkennilegt hvernig sum hagsmunasamtök hafa brugðist við þegar við erum að koma okkur á þann stað að vera með meira viðskiptafrelsi en mjög margar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þá benda menn á að það eigi að ganga lengra og að þetta sé einhvers konar plat, af því að ganga eigi inn á tolla á ákveðnar tegundir landbúnaðarvara. Svo að því sé til haga haldið þá höfum við fram til þessa, þegar kemur að landbúnaðarvörur, þvert á það sem menn halda, verið mjög frjálslynd í viðskiptastefnu okkar; að öðru leyti en þeim landbúnaðarafurðum sem eru framleiddar hér á landi. Einhver kynni að segja að þetta væri alveg sjálfsagt. Það er ekki. Við höfum ekki haft neina tolla eða aðflutningsgjöld á ýmsum landbúnaðarvörur, hveiti, sykri eða ýmsu öðru sem telst undir landbúnaðinn, og það er ólíkt því sem gerist í Evrópusambandinu svo að dæmi sé tekið. Ef við mundum ganga í Evrópusambandið þá mundi verð á vörum hækka út af tolla hækkunum sem eru í Evrópusambandinu og á ýmsum vörum sem okkur virðast vera sjálfsagðar. (Gripið fram í.) Þá er ég til dæmis að tala um vörur frá Bandaríkjunum og það er ekki bara með landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum heldur ýmislegt annað. Við höfum fram til þessa verið frjálslynd en við erum að ganga enn lengra núna. Og við getum gert þetta vegna þess að við erum með sjálfstæða viðskiptastefnu. Ef við værum í Evrópusambandinu gætum við ekki gert þetta. Við gætum ekki verið að leggja niður tolla af 1.600–1.700 tollflokkum ef við værum í tollabandalagi eins og Evrópusambandinu. Það að við ráðum sjálf okkar eigin viðskiptastefnu er tækifæri sem við eigum að nýta áfram og betur.

En við þurfum að horfast í augu við það að landbúnaður er með ákveðna sérstöðu í heiminum og flestar þjóðir sem við berum okkur saman við ef ekki allar eru með ákveðna vernd þegar kemur að landbúnaði sem snýr að menningu viðkomandi þjóðfélags. Japanir eru til dæmis með, síðast þegar ég skoðaði, 800% toll á hrísgrjónum vegna þess að þeir eiga erfitt með að keppa við hrísgrjónarækt í Ástralíu og annars staðar og þeir gera það vegna þess að þeir segja að Japan væri ekki Japan ef þar væri ekki hrísgrjónarækt. Við erum hins vegar með mestu verndina á framleiðslu sem er ekkert íslensk eða tengd okkar menningu í raun, eða verksmiðjubúskapur. Þvert á það sem menn halda þá er verð á lambakjöti hér til dæmis mun lægra en heimsmarkaðsverð. Heimsmarkaðsverð er auðvitað ekki til en miðað við lægsta verð í heiminum, miðað við viðmiðunartölu OECD, þá er lambakjöt á lægra verði hér á landi en því sem nemur þessu heimsmarkaðsverði, nautakjöt svona svipað. En það sem er miklu dýrara er annars vegar kjúklingar og hins vegar svín, sérstaklega kjúklingarnir. Við erum með ákveðna sérstöðu í því að kjúklingakjöt er almennt talið vera ódýrasta matvaran en það er öðruvísi hér á landi. Hér er tækifæri, ef menn vilja ræða þessa hluti af skynsemi, ef menn vilja auka frelsi enn frekar, að við mundum gefa þessum framleiðslueiningum ákveðinn aðlögunartíma og opna á innflutning á þeim vörum. Það eru rök í sjálfu sér að við erum með betri gæði á þessum vörum en mörg þau lönd sem við berum okkur saman við. Notkun sýklalyfja er minnst í Noregi og næstminnst, eða svipuð, hér á Íslandi í framleiðslu á landbúnaðarvörur, en mun meiri í Evrópuríkjunum, alveg ótrúlega mikil. Ég er enginn sérfræðingur en það sem ég veit þó er að kjötvörur þar sem sýklalyf eru notuð eru verri en þar sem þau eru ekki notuð. Við þurfum að halda í þessa sérstöðu, við þurfum að halda í heilnæmi vörunnar. Það er eitthvað sem mun verða styrkur okkar í nútíðinni og verða enn þá meiri styrkur í framtíðinni. Ég tel að vísu að við getum nýtt þessi tækifæri miklu betur en við gerum, sérstaklega út af auknum ferðamannastraumi og ég vona nú að þeir aðilar sem framleiða þessar vörur fari að gera það í auknum mæli. Ef menn vilja hins vegar opna á samkeppni gegnum verksmiðjubúskapinn þá held ég að það sé mjög skynsamlegt. Auðvitað er þetta allt í samkeppni hvert við annað en ég mundi ætla að flestir, þegar þeir hugsa um þessa hluti, vilji samt sem áður sjá hér landbúnað í hefðbundnum búgreinum og þá er ég að vísa í sauðfjárrækt og nautgriparækt og þá með sérstaka áherslu á gæðin. Ég mundi gjarnan vilja sjá í næsta búvörusamningi sérstaka áherslu lagða á gæði landbúnaðarvara og við værum þá að umbuna fyrir það og setja okkur háleit markmið hvað það varðar. En nóg um tolla.

Aðalatriðið er að við erum án nokkurs vafa á réttri leið. Hér er verið að lækka skuldir. Hér er verið að skila afgangi þriðja árið í röð, það er verið að einfalda og lækka skatta, það er verið að lækka skatta á meðaltekjufólk og það er mjög mikilvægt. Ég veit ekki hvernig mönnum dettur í hug að gagnrýna það því það er það fólk sem heldur uppi hagkerfinu. Ríkasta fólkið hefur alltaf möguleika, Það getur greitt skatta þar sem það vill. En meðaltekjufólkið á minni möguleika og við eigum sérstaklega að huga að því þegar við erum að lækka skatta að líta til þess fólks.