145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég og hv. þingmaður erum sammála um mikilvægi þess að greiða niður skuldir og hvað það er mikilvægt fyrir stöðu þjóðarinnar að vera í stakk búin, þegar horft er á skuldastöðuna, til að taka við hugsanlegum áföllum sem gætu verið utanaðkomandi, þau þurfa ekki endilega að vera upprunnin hér innan lands. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, en við höldum áfram að takast á um hvernig við skiptum síðan ábatanum af betri stöðu, þ.e. ábatanum sem situr eftir í rekstrinum.

Hv. þingmaður talaði um að það þyrfti að hjálpa fólki að eignast íbúð, og fór yfir það. Mig langar til að óska eftir viðbrögðum frá hv. þingmanni við þeirri staðreynd að þeir sem skulda verðtryggð lán í heimilum sínum hafa fengið 80 þús. millj. kr. til þess að laga stöðu sína á meðan leigjendur hafa lítið fengið. Þegar upp er staðið í þessu fjárlagafrumvarpi 2016 munu húsnæðisbætur aðeins hækka um 700 millj. kr. ef frá eru dregnar þær 400 milljónir sem áttu að koma á árinu 2015 sem mótvægisaðgerð við matarskatt.

Er hv. þingmaður sammála mér um að það sé ekki nógu gott og að gera þurfi betur við leigjendur? Mun hv. þingmaður berjast fyrir eða smíða breytingartillögu í þá veru?