145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar og góðar spurningar. Ég mun berjast fyrir því eins mikið og ég get og hef gert það frá því að ég hóf afskipti af stjórnmálum að við reynum hér að bæta umhverfið bæði fyrir þá sem kaupa húsnæði og þá sem leigja. Mér finnst það hins vegar vera hvor sín hliðin á sama peningnum. Við nýtum fjármunina mjög óskynsamlega, að mínu áliti. Við erum líka búin að búa okkur til kerfi sem er fullkomlega galið, t.d. þegar kemur að greiðslumati fyrir fólk. Það hefur komið til mín fólk sem greiðir háar upphæðir í leigu en það getur ekki fengið greiðslumat þó svo að greiðslurnar í hverjum mánuði mundu jafnvel lækka við það. Ég veit um einn hv. þingmann sem er mjög vel stæður en hann kemst ekki í gegnum greiðslumat. Við erum með kerfi sem er orðið mjög bjagað. Við erum heldur ekki með nægilegt framboð af lóðum. Við erum að hækka byggingarkostnað út af reglugerð og við erum búin að hækka mjög gjöld sveitarfélaga hvað þetta varðar. Það kemur bæði niður á þeim sem eru að reyna að eignast húsnæði og þeim sem leigja.

Það er stóra málið. 100, 200, 300 milljónir til eða frá í bætur, þótt það sé milljarður, er ekki stærsta einstaka málið. Við verðum að fara í rótina. Af því að hv. þingmaður nefndi 80 þús. milljónir til niðurgreiðslu höfuðstóls þá er það þannig að ef maður tekur nokkur ár fram í tímann hafa 80–100 þús. milljónir farið í vaxtabætur. Samt sem áður hefur það ekki nýst til að greiða inn á höfuðstólinn hjá þessu fólki. Það finnst mér agalegt að sjá.

Stóra einstaka málið er þetta: Ég er algjörlega sammála markmiðunum en ég vil fara í kjarna málsins, kjarna vandans. Ég hef nefnt nokkra þætti (Forseti hringir.) hér sem ég tel vera kjarna málsins.