145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Takk fyrir góðar spurningar. Ég ætla að reyna að svara þeim öllum á þessum stutta tíma. Ég byrja á því sem hv. þingmaður nefndi síðast. Það er einmitt dæmi um að við hefðum óneitanlega betur forgangsraðað með öðrum hætti. Þegar ég var í stóli heilbrigðisráðherra og hrunið varð lögðum við upp með að reyna að flýta því að byggja upp nýjan spítala eins og hægt er. Ég held að besti tíminn hefði verið nákvæmlega á þeim tímapunkti þegar slaki var í hagkerfinu, iðnaðarmenn fóru úr landi o.s.frv. Það var ekki gert. En fyrir þann tíma hafði verið beðið mjög lengi með viðhald vegna þess að menn voru alltaf að fara að byggja nýjan spítala. Og nú fáum við það beint í fangið. Við leysum þetta mál ekki fyrr en við byggjum nýjan spítala. Meira að segja þegar við fáum glæsilegan, nýjan skanna, sem er höfðingleg gjöf, þurfum við að byggja yfir hann. Það er eins dýrt og það getur orðið. Ég þurfti að setja ákveðna fjármuni í viðhald af því að það var ekkert annað hægt. Það var á hjartadeildinni, ef ég man rétt. Það voru peningar sem fóru í rauninni — ég segi ekki alveg niður í holræsið, en þetta var skammtímafjárfesting. Þetta er stóralvarlegt mál sem við þurfum að fara yfir. Þessi ríkisstjórn hefur sem betur fer verið að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar og það sést á öllum tölum.

Varðandi tillögur húsnæðismálaráðherra: Ég hef áhyggjur af því almennt að við förum ekki nægjanlega í rót vandans. Við erum ekki nægjanlega búin að búa til kerfi til þess að hjálpa fólki við að eignast húsnæði. Það þýðir ekki að ég vilji ekki að fólk leigi, að ég vilji ekki að leigjendur hafi það sem allra best. En ef maður getur auðveldlega eignast húsnæði mun húsaleiga líka lækka, það segir sig sjálft. Ég hef áhyggjur af því þegar kemur að bótum almennt, eins og vaxtabótum og húsaleigubótum, að vaxtabæturnar nýtist í rauninni fjármálastofnunum og húsaleigubæturnar leigusölum en ekki leigjendum. Ég hef áhyggjur af því. Við getum alveg farið hratt í þetta og verðum að fara hratt í þetta. Þetta er aðkallandi vandi. Það er óþolandi að ungt fólk í dag geti ekki (Forseti hringir.) með auðveldum hætti keypt sér íbúð eða leigt á almennum markaði.