145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Ég ætla að fara aðeins yfir þetta í öfugri röð og reyna að svara eins vel og ég get á tveimur mínútum.

Ljósleiðarinn er nokkuð sem er gott að er samhljómur um í hv. fjárlaganefnd. Hann tengist mörgu og sannarlega ferðaþjónustunni. Mér skilst að hann tengist landbúnaði og svo bara hinu einfalda, sem mér finnst vera sterkustu rökin, þegar fólk úti á landi getur ekki fengið börnin sín heim um helgar vegna þess að þau geta ekki lært. Við hljótum öll að skilja það og þá þurfum við að grípa inn í. Við erum á réttri leið. Vinna hv. þm. Haraldar Benediktssonar er mjög góð. Þar er áætlun um hvernig við eigum að fara í þetta verk. Mér finnst hún skynsamleg og við eigum að fylgja henni eftir og sjá til þess að fjármunum sé forgangsraðað í þetta.

Ég er ósammála hv. þingmanni hvað það varðar að það sé andstæða séreignarsparnaðar, þ.e. söfnunar í lífeyrissjóð, ef hann fer í húsnæði. Þetta er nefnilega hvor sín hliðin á sama peningnum. Ég er með viðtalstíma, búinn að hafa frá því að ég byrjaði og reyni að leyfa fólki að hafa aðgang að mér … (ÖS: Hvar lætur maður skrá sig?) — Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur skráð sig í Valhöll í síma 515 1700 og ég tek á móti honum á morgun og fer yfir þetta með honum. — Fólk sem skuldar í húsnæðinu sínu og er komið á lífeyrisaldur er í mjög erfiðum málum. (Gripið fram í: Það er búið.) Þetta er sparnaður hvort sem maður vill búa í skuldlausu húsi, sem er tiltölulega ódýrt, eða selja og minnka við sig, það er ekki minna virði en lífeyrissjóðurinn sem fólk fær í hverjum mánuði, þannig að þetta er hvor sín hliðin á sama peningnum.

Varðandi vaxtabæturnar þá er ég ekki viss um að ég nái öllu mínu fram. Ég er voða glaður þegar ég sé hæstv. fjármálaráðherra tala fyrir hlutum sem ég er búinn að tala fyrir í áratugi. Ég hef áhyggjur af því að vaxtabætur séu fyrst og fremst bætur til fjármálastofnana. Ég hef áhyggjur af því að niðurgreiðsla leigu fari til leigusala. Ég er að hugsa um leigjendur og fólk sem er að kaupa húsnæði. Ég er að hugsa hvernig við getum nýtt fjármunina best í það ef við settum vaxtabæturnar og ég tala nú ekki um framlögin í Íbúðalánasjóð, sem eru orðin á við heilan (Forseti hringir.) nýjan Landspítala, í að greiða niður höfuðstól fólks. (Forseti hringir.) Þá væri ekki neinn vandi hér, virðulegur forseti.