145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með þann viðsnúning sem orðið hefur í ríkisfjármálunum á síðustu árum. Við getum sammælst um að gleðjast yfir því að sjá hversu vel gengur, hversu mikill afgangur er fyrirhugaður nú á fjárlögum, þó að við getum haft ólíkar skoðanir á því hvernig svigrúmið er nýtt og á því hvort kannski væri ástæða til að hafa þennan afgang enn meiri með eðlilegri gjaldtöku af þeim sem nytja sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Við sjáum núna fordæmalausa afkomu í sjávarútvegi á sama tíma og ríkisstjórnin hefur komið hér gang í gang til að lækka auðlindagjöld af sjávarútvegi og alveg eins og við klúðruðum því í upphafi fiskveiðistjórnarkerfisins að leggja eðlileg gjöld fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum látum við líka fram hjá okkur fara tækifæri til að leggja alvörugjöld á ferðaþjónustuna og hjálpa henni við að hækka verð á fordæmalausum útþenslutímum hennar, þegar við ættum að vera að taka af henni eðlilegri gjöld. Þetta er sannarlega góður árangur og eins og Þorsteinn Pálsson rakti í ágætispistli í dag er hann árangur allra ríkisstjórna frá hruni. Við getum glaðst yfir því hversu vel okkur hefur tekist að taka á.

Ég vil hlaupa á nokkrum þáttum sem eru ofarlega í umræðunni þegar maður horfir á þetta fjárlagafrumvarp og í fyrsta lagi reyna að útskýra fyrir hæstv. fjármálaráðherra eðli tillögu Samfylkingarinnar sem hefur verið lögð fram um að bætur almannatrygginga hækki sem svarar lágmarkslaunum fram til ársins 2018 þannig að þau verði á árinu 2018 300 þús. kr. Í því felst engin bótavæðing samfélagsins, eins og ráðherrann sagði hér í morgun, og hann misskilur frumvarpið ef hann heldur að það snúist um hækkun atvinnuleysisbóta. Það snýst um hækkun bóta almannatrygginga vegna þess að þeir sem eru lífeyrisþegar eiga ekki val um að bæta sér upp tekjutap með vinnu. Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um að verið sé að koma í veg fyrir hvata til vinnu skilur hann ekki alveg samhengi hlutanna, því að hvorki ellilífeyrisþegar né örorkulífeyrisþegar eru almennt í færum til að vinna. Að því leyti sem við þurfum að skapa hvata fyrir örorkulífeyrisþega ættum við að hugsa það hvort við séum raunverulega að búa til hvata í núverandi kerfi þar sem skattur leggst á hverja unna krónu og hún skerðir bætur almannatrygginga. Það væri kannski eðlilegra að heyra tillögur um örorkulífeyrisþega eða ellilífeyrisþega sem vinna sér inn hóflegar tekjur, annaðhvort að þær mundu ekki skerða bætur almannatrygginga eða skerða þær í minna mæli, þannig að það væri ekki svo að menn töpuðu 75 aurum á hverri krónu eins og reyndin er í dag.

En miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra, þegar hann kom síðan og leiðrétti sjálfan sig í andsvari við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur áðan, get ég ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann sé í grunninn sammála því að bæta kjör lífeyrisþega. Ég hlýt þá að skora á hæstv. ráðherra að styðja það frumvarp sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram. Það felur ekki í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, neina breytingu á atvinnuleysisbótum heldur aðeins að lífeyrisþegar njóti til fulls sambærilegs afkomuöryggis og fólk á vinnumarkaði. Fyrir því eru augljós réttlætisrök, enda það fólk almennt ekki í færum til að bæta sér upp lakari afkomu með vinnu.

Það er athyglisvert að sjá í fjárlagafrumvarpinu að skilaboðin til barnafjölskyldna á meðaltekjum eru einfaldlega: Haldið þið áfram að flytja burt af landinu. Það er sama hvar borið er niður í framfærslukerfunum; vaxtabótakerfinu, barnabótakerfinu, fæðingarorlofinu, húsaleigubótakerfinu, í öllum kerfunum er fólk á meðaltekjum að detta út. Tækifærið, svigrúmið er ekki notað til þess að hækka fjárhæðarmörk heldur er einungis mjög hófleg hækkun fjárhæðarmarka upp á 3% í barnabótakerfinu, engin í vaxtabótakerfinu. Það veldur því, samhliða hækkun launa, að fólk á meðaltekjum sturtast út úr þessum kerfum. Hvað varðar fæðingarorlofið eru skerðingarmörkin þar ekki heldur látin fylgja eðlilegri launaþróun, þannig að við ungu fólki á meðaltekjum á Íslandi blasir sá veruleiki þegar kemur að afkomustuðningi frá hinu opinbera að himinn og haf er á milli Íslands og annarra Norðurlanda. Í því samhengi hlýtur maður auðvitað að horfa á það að ekki er heldur verið að gera neitt nýtt í húsnæðismálum. Það er gert ráð fyrir því vegna hækkunar launa og lækkunar skulda heimilanna að ríkið spari sér 1.500 milljónir í vaxtabótaútgjöldum og það er nákvæmlega framlagið sem ætlað er í félagslegar leiguíbúðir, þannig að verið er að láta meðaltekjufólkið í landinu borga fyrir uppbyggingu nýs félagslegs húsnæðis. Það er ekki neitt nýtt framlag af hálfu ríkisstjórnarinnar inn í það verkefni.

Það er líka stór spurning hvers vegna ríkisstjórnin efnir ekki að fullu í fjárlagafrumvarpinu samkomulag við aðila vinnumarkaðarins. Ég spyr hvort ríkisstjórnin sé ekki búin að læra af þeim mistökum að ganga gegn fyrirheitum gagnvart aðilum vinnumarkaðarins á undanförnum árum, sem tryllti allan vinnumarkaðinn og kom okkur í þær ógöngur sem enn sér ekki fyrir endann á. Ætlar hún að fara að endurtaka þann leik að svíkja gerða samninga fyrir aðila vinnumarkaðarins? Maður hlýtur að spyrja sig að því.

Ég vil sérstaklega í framhaldi af ummælum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan og þess sem maður heyrir oft frá þingmönnum Framsóknarflokksins halda uppi vörnum fyrir vaxtabótakerfið. Það má helst skilja af málflutningi þessara þingmanna að óeðlilegt sé að skulda nokkuð í húsnæði og að ef ríkið styðji við vaxtakostnað fólks og greiði hann niður felist í því hvati til að skulda.

Það eru ekki allir fæddir með silfurskeið í munni og fólk þarf sumt hvert að skuldsetja sig til að eignast húsnæði og í því landi þar sem vaxtastig er viðvarandi miklu hærra en í nágrannalöndunum var vaxtabótakerfið búið til sem nauðvörn fyrir venjulegt launafólk til að það gæti einhvern tíma eignast eitthvað. Það er alveg undarlegt að heyra aftur og aftur talað niður að fólk þurfi að skuldsetja sig til að kaupa húsnæði og látið að því liggja af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að það sé einkenni sérstakrar óráðsíu og kjánaskaps fólks að það skuldsetji sig vegna húsnæðis og það fólk sé með einhverjum hætti orðið eins og fíklar, háð því að skuldsetja sig vegna þess að það fær vaxtabætur. Þvílík öfugmæli.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir löngu tímabærri lækkun tolla á föt og skó og ég fagna því, en mér finnst mjög sérkennilegt að sjá sjálfstæðismenn koma upp í ræðustól Alþingis og hrósa sér af tollalausu landi og tollfrjálsu landi á sama tíma og þeir standa dyggan vörð um ofurtoll á matvælum. Það er orðið alveg ótrúlegt að sjá hversu Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn algerlega samdauna Framsóknarflokknum og það glittir ekki einu sinni í lágmarksfrelsistilhneigingar af hálfu Sjálfstæðisflokksins að því leyti að losa um haftakrumluna í landbúnaðinum. Og þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti hálfgrátbólgna ræðu sína um kosti frelsisins við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra gætti hann þess vandlega að ræða hvergi frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum.

Svigrúmið sem ríkið hefur er auðvitað alltaf takmarkað og þessi ríkisstjórn er búin að nota mikinn hluta af því svigrúmi sem var til misráðinnar skuldamillifærslu, sem nýttist í mörgum tilvikum fólki sem var ekki í nokkrum einasta skuldavanda og þekkti hann einungis af afspurn, og fyrir vikið er svigrúmið miklu minna til skynsamlegra aðgerða í skattamálum af hálfu ríkisins. Það hefði verið æskilegt að nýta og setja í forgang að nýta svigrúm til að lækka tryggingagjald. Það var kosningastefna okkar í Samfylkingunni og ég held enn þá að það hefði verið gáfulegast að byrja á lækkun tryggingagjalds öllu öðru framar. Það hefði aukið svigrúm fyrirtækjanna til að hækka laun og stutt við þekkingu og nýsköpun. Að síðustu hlýtur maður að þurfa að auglýsa eftir Framsóknarflokknum í þessari umræðu. Ég sé formann fjárlaganefndar sitjandi í hliðarsal og vil skora á hana að taka til máls í umræðunni því að hér er af hálfu hæstv. fjármálaráðherra lagt til að selja hluti í Landsbankanum, sem er í beinni mótsögn við samþykkta stefnu Framsóknarflokksins á flokksþingi frá í vor um að Landsbankinn verði að öllu leyti áfram í ríkiseigu og verði breytt í samfélagsbanka. Það er svolítið gaman að sjá hér léttglottandi framsóknarmenn sem skammast sín ekki einu sinni almennilega yfir því að svíkja svona dyggilega nýsamþykkta stefnu eigin flokksþings.